Ólöf Nordal borgarlistamaður Reykjavíkur

Hjálmar Sveinsson, Ólöf Nordal og Dagur B Eggertsson á Höfða …
Hjálmar Sveinsson, Ólöf Nordal og Dagur B Eggertsson á Höfða í dag. mbl.is/Jón Helgi

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri útnefndi í dag Ólöfu Nordal myndlistarkonu borgarlistamann Reykjavíkur 2021 við hátíðlega athöfn í Höfða. 

Útnefningin  er heiðursviðurkenning til listamanns sem með listsköpun sinni hefur skarað fram úr og markað sérstök spor í íslensku listalífi. Hjálmar Sveinsson, formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs, gerði grein fyrir einhuga vali ráðsins á Ólöfu. Listamanninum var veittur ágrafinn steinn, heiðursskjal og verðlaunafé og Una Sveinbjarnardóttir fiðluleikari flutti tvö verk við tilefnið.

Ólöf Nordal myndlistakona.
Ólöf Nordal myndlistakona. mbl.is/Jón Helgi

Ólöf Nordal fæddist árið 1961 í Danmörku. Hún nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1981-85, við Gerrit Rietvelt Academie í Hollandi 1985, í Bandaríkjunum við Cranbrook Academy of Art 1989-91 og við höggmyndadeild Yale-háskóla 1991-93. Verk Ólafar hafa verið sýnd á öllum helstu sýningarstöðum hér á landi en einnig alþjóðlega og eru hluti af safneignum helstu safna hérlendis. 

Fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg að Ólöf hafi hlotið ýmsa styrki og viðurkenningar fyrir list sína, m.a. úthlutun úr Listasjóði Dungal, styrk úr Listasjóði Guðmundu sem er ein æðsta viðurkenning sem veitt er á sviði myndlistar á Íslandi og viðurkenningu úr höggmyndasjóði Richards Serra.

Á nýársdag 2018 var Ólöf sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Riddarakrossinn hlaut Ólöf fyrir framlag sitt til íslenskrar myndlistar.

mbl.is/Jón Helgi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert