Sannfærður um að réttlætið muni sigra

Björn Þorláksson.
Björn Þorláksson. Ljósmynd/Aðsend

Björn Þorláksson, fyrrverandi upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar sem fyrr á árinu höfðaði mál gegn umhverfisráðherra vegna ólögmætrar niðurlagningar á starfi hans, segist hafa verið hvattur af stéttarfélagi sínu BHM til að leita réttar síns. Hann er sannfærður um að réttlætið muni á endanum sigra.

Fyrirtaka málsins var í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Þinghald er áætlað í september.

Bótakrafa Björns er þríþætt og snýr hún að launum sem hann varð af, miskabótum og kostnaðinum sem hlaust af búferlaflutningum frá Akureyri til Reykjavíkur þegar hann tók við starfinu. Hann kveðst ekki hafa komið nálægt kröfugerðinni og gat ekki staðfest upphæð bótakröfunnar í samtali við mbl.is en á vef RÚV kemur fram að hún nemi tveggja ára launum ásamt þremur milljónum króna í miskabætur, eða samtals 23 milljónum króna.

Ömurlegt áfall

Björn segir málið í höndum BHM sem hafi hvatt hann til að leita réttar síns, ekki síst fyrir aðra ríkisstarfsmenn sem á eftir koma. „Í mínum huga snýst þetta fyrst og fremst um að stjórnsýsla, sem er verulega ábótavant, sé ekki látin óáreitt,“ segir hann.

„Ég get ekki annað en verið þakklátur fyrir það að stéttarfélagið greip mig fiðurmjúkum örmum í þessu ömurlegasta áfalli sem hefur dunið á mér atvinnulega fyrr og síðar og hefur einhvern veginn stýrt minni för síðan. Ég trúi þeim þegar þau segja mér að það séu svo mörg lög þverbrotin út og suður, auk jafnræðisreglna og meðalhófs,“ bætir hann við.

Birni var sagt upp hjá Umhverfisstofnun.
Birni var sagt upp hjá Umhverfisstofnun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Smeykur um að forstjórinn láti ekki segjast

Sam­kvæmt gögn­um máls­ins til­kynnti nú­ver­andi for­stjóri Um­hverf­is­stofn­un­ar, Sigrún Ágústs­dótt­ir, Birni með bréfi 19. nóv­em­ber í fyrra breyt­ing­ar á starfi hans og verk­efn­um. Í bréf­inu eru til­kynntar veru­leg­ar breyt­ing­ar á starf­inu, verk­efna­skipu­lagi þess og áhersl­um tengd­um starfi upp­lýs­inga­full­trúa, sam­hliða því að ekki yrði ráðið í eitt og hálft stöðugildi tengt fræðslu og upp­lýs­inga­miðlun hjá stofn­un­inni. Sér­stak­lega er til­tekið í bréf­inu að breyt­ing­in komi til „vegna al­mennr­ar aðhalds­kröfu fyr­ir rekst­ur stofn­un­ar­inn­ar og auk­inn­ar áherslu rík­is­stjórn­ar­inn­ar á staf­ræna þróun“.

„Ég er smeykur um að forstjóri Umhverfisstofnunar muni ekki láta sér segjast þótt hún fái á sig dóm í undirrétti,“ segir Björn um dómsmálið sem er að hefjast. „Mér sýnist málið vera þannig vaxið að hún sé annaðhvort of þver til að átta sig á lögbrotum sínum eða þá að hún njóti aðkeyptrar ráðgjafar úti í bæ um það hvernig sé hægt að ganga á milli bols og höfuðs á ríkisstarfsmönnum sem geðþótti hennar segir að passi ekki inn.“

Hann nefnir að aldrei hafi borið skugga á þriggja ára starf hans sem upplýsingafulltrúi með fyrri forstjóra stofnunarinnar. „Svo kemur nýr forstjóri og þá eru líkur á því að brotni potturinn sé kannski ekki hjá upplýsingafulltrúanum.“

Býr sig undir langa rimmu

Björn kveðst búa sig undir langa rimmu en er sannfærður um sigur. „Réttlætið mun sigra og ég tek þessa varnarbaráttu að beiðni stéttarfélags míns fyrir alla þá sem á eftir koma,“ greinir hann frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert