Segir fasteignamat á hótelum alltof lágt

Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri Mýrdalshrepps.
Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri Mýrdalshrepps. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sveitarstjóri Mýrdalshrepps segir fasteignamat á hótelum og gistihúsum í hreppnum alltof lágt miðað við markaðsverð og vill að úr því verði bætt um leið og starfsemin hefur rétt úr kútnum eftir Covid-19.

„Við ætlum að gefa rekstraraðilum svigrúm til að rétta úr kútnum. Síðan verður þetta skoðað til að gæta fullrar sanngirni,“ segir Þorbjörg Gísladóttir sveitarstjóri.

Sveitarfélagið óskaði eftir endurmati hjá Þjóðskrá Íslands áður en kórónuveiran skall á og ætluðu fulltrúar stofnunarinnar að heimsækja hreppinn síðasta vor en ekkert varð af því vegna faraldursins.

Þorbjörg segir sveitarfélagið hafa velt fyrir sér lágu fasteignamati á hótelum og gistihúsum eftir að ferðaþjónustan fór á flug fyrir einhverjum árum. Engin viðskipti höfðu þó átt sér stað með slíkt húsnæði og því hafði sveitarfélagið lítið í höndunum varðandi muninn á fasteignamati og markaðsvirði.

Vík í Mýrdal. Fremst er Reynisfjall.
Vík í Mýrdal. Fremst er Reynisfjall. mbl.is/Jónas Erlendsson

Fór á verði langt yfir fasteignamati 

Þegar Hótel Höfðabrekka var aftur á móti selt fyrir um tveimur árum kom í ljós að það fór á verði sem var mjög langt yfir fasteignamati, að sögn Þorbjargar. „Þegar þetta hótel er selt sjáum við svart á hvítu hvernig markaðsverðið er. Þetta snýst um sanngirni gagnvart öðrum fasteignaeigendum. Þegar það munar litlu á hótelum og jafnvel stórum íbúðahúsum, sem hafa hækkað mjög mikið, þá svíður mönnum það,“ greinir hún frá og segir eðlilegt að þessi mál séu skoðuð í ljósi breytinganna sem hafi orðið í sveitarfélaginu á undanförnum árum.

Hún segir fasteignamatið í sveitarfélaginu hafa verið að hækka. Síðustu tvö til þrjú árin á undan Covid hafi það hækkað um að meðaltali 9-10% á hverju ári á íbúðarhús. Þessi þróun hafi aftur á móti ekki endurspeglast í fasteignamati á hótelum og gistihúsum þar sem grunnmatið sé alltof lágt.  

Ferðamenn í Víkurfjöru.
Ferðamenn í Víkurfjöru. mbl.is/Jónas Erlendsson

Hækkar tekjur sveitarfélagsins

Fjögur stór hótel eru í Vík í Mýrdal; Hótel Kría, Hótel Vík, Hótel Katla og Hótel Lundi. Þrjú smærri íbúðahótel eru einnig í bænum, fyrir utan annars konar gistihús. Ef litið er til dreifbýlisins er þar meðal annars að finna annað stórt hótel, Hótel Dyrhólaey.

Spurð hversu miklum fjármunum Þorbjörg telur sveitarfélagið verða af vegna munarins sem er á fasteignamati og markaðsvirði segir hún að fasteignagjöld til rekstraraðila muni hækka og það hafi áhrif til hækkunar á tekjum sveitarfélagsins. Hún ítrekar þó að ekki verði ráðist í neinar aðgerðir í tengslum við fasteignamatið fyrr en ferðaþjónustan og rekstraraðilar hafa jafnað sig á erfiðu ástandinu sem hefur verið undanfarið vegna áhrifa kórónuveirunnar.

Vík í Mýrdal.
Vík í Mýrdal. mbl.is

Slegist um íbúðir í Vík í Mýrdal 

Viðvarandi skortur á íbúðum er í Vík í Mýrdal og heyrir það til undantekninga að þær fari á sölu, svo mjög er slegist um þær, bætir Þorbjörg við.

Mikið er byggt í bænum og verið er að úthluta mörgum lóðum. Sem dæmi var samþykkt á fundi í gær að úthluta lóð undir 12 íbúða fjölbýlishús. Verið er að skipuleggja nýtt hverfi sem er í deili- og aðalskipulagsvinnu. Úthlutun lóða í tengslum við það fer væntanlega fram eftir áramót.

Þorbjörg kveðst sjá dagamun í ferðamennskunni í bænum. Öll bílastæði hjá hótelum séu meira og minna full og umferð ferðamenna sé orðin töluverð. „Við lítum björtum augum til framtíðar,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert