Skilgreindum áhættusvæðum ekki breytt

Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sóttvarnalæknir telur ekki tímabært að breyta skilgreindum áhættusvæðum sem Íslendingum er ráðlagt að ferðast ekki til. Í dag eru öll lönd og svæði heims utan Grænlands skilgreind sem áhættusvæði. 

Fram kemur í tilkynningu á vef landlæknis að sóttvarnalæknir ráðleggi áfram íbúum Íslands sem ekki eru fullbólusettir eða með staðfesta fyrri sýkingu frá ferðalögum á áhættusvæði. 

Þeir sem hyggja á ferðalög eru beðnir um að sýna varúð og sinna persónulegum sóttvörnum. 

Almennt kemur vörn bóluefnis ekki fram fyrr en í fyrsta lagi 7-14 dögum eftir að bólusetningu er lokið. Þá er ekki víst, eins og við á um öll bóluefni, að bólusetning við Covid-19 veiti vörn hjá öllum þeim sem fengið hafa bólusetningu. Eins er ekki vitað hve lengi ónæmi hjá þeim sem sýkst hafa af Covid-19 varir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert