Aflétting sóttkvíar á landamærum metin um mánaðamótin

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aflétting sóttkvíar fyrir óbólusetta sem koma til landsins verður metin út frá næstu mánaðamótum. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Fram kom í samtali við formann Samtaka ferðaþjónustunnar í gær að ferðaþjónustan biði eftir því að sóttkví yrði afnumin á landamærunum. Þá gæti ferðasumarið hafist af alvöru.

„Við erum að sjá þessi nýju afbrigði þannig að við höfum hingað til ávallt tekið svona ákvarðanir út frá ýtrustu varfærni. Við erum auðvitað ekki búin að ná hjarðónæmi fyrr en við erum búin að ná fullri bólusetningu, það hefur verið miðað við jafnvel 80 prósent af þeim sem er gert ráð fyrir að bólusetja,“ segir Katrín.

„Það er ekki langt í það, þetta gengur auðvitað vel hjá okkur. Við erum aðeins að sjá að unga fólkið er hægara að bregðast við boði í bólusetningu en það skiptir auðvitað öllu máli til þess að ná hjarðónæmi. Við munum fara yfir þetta núna í lokaviku júní og taka ákvörðun um framhaldið.“

Vilja taka mjög varfærin skref

Nú virðist vera að bóluefnin virki gegn öllum afbrigðum sem hafa komið fram. Það gætu náttúrulega komið fram ný afbrigði til langrar framtíðar en ef á að gæta ýtrustu varfærni þá er spurning hvenær tilefni verður til að opna?

„Við erum auðvitað búin að vera að fikra okkur áfram. Við byrjuðum á því með því að heimila bólusettum að koma og vorum með þeim fyrstu í því. Síðan höfum við verið með einfalda skimun fyrir þá aðila, næsta skref gæti verið að hætta með þá skimun. Þannig að við viljum bara taka mjög varfærin skref, gera þetta varlega.

Ég get bara alveg óhikað sagt það, af því ég var nú á þessum ágæta fundi í vikunni þar sem ég hitti marga af mínum kollegum, og fólk telur að við höfum tekið mjög skynsama afstöðu í okkar sóttvarnaráðstöfunum hvað varðar til að mynda þessar ströngu aðgerðir á landamærunum. Og höfum náð að viðhalda í raun og veru meira frelsi í samfélaginu en flestar aðrar þjóðir.“

Ekki í kortunum strax að opna fyrir óbólusetta frá Bandaríkjunum

Katrín segir að ekki sé í kortunum á næstunni að leyfa óbólusettum einstaklingum frá löndum utan EES/EFTA að koma til landsins, með eða án sóttkvíar. Þetta á til að mynda við um ferðamenn frá Bandaríkjunum sem geta bara komið hingað séu þeir bólusettir.

„Við erum, og megum ekki gleyma því, ekki komin í þessi mörk sem við stefnum að með hjarðónæmi. Við þurfum í raun og veru að komast lengra til þess að stíga frekari skref á landamærunum.“

52 prósent landsmanna eru nú fullbólusett en samtals 80,9 prósent hafa fengið fyrri skammtinn. 2,2 prósent til viðbótar eru með mótefni vegna fyrri Covid-sýkingar.

mbl.is