Bretar og Norðmenn tengjast um sæstreng

Unnið að lagningu Norðursjávarsæstrengsins í Noregi.
Unnið að lagningu Norðursjávarsæstrengsins í Noregi. Ljósmynd/northsealink.com

Lokið var við það í vikunni að tengja lengsta særafstreng heims sem liggur um Norðursjó á milli Kvilldal í Noregi og Blyth á Englandi. Strengurinn er 720 km langur og kostaði verkefnið 1,5 til 2 milljarða evra, jafnvirði 220 til 295 milljarða íslenskra króna.

Raforka, sem framleidd er með vindmyllum í Bretlandi, verður flutt til Noregs um strenginn og Norðmenn flytja á móti orku, sem framleidd er í norskum fallvatnsvirkjunum, til Bretlands. Gert er ráð fyrir að prófanir á raforkuflutningum um strenginn hefjist í október. Nord Pool-raforkumarkaðurinn hefur jafnframt fengið leyfi til að halda dagleg upppboð á raforku, sem flutt verður um strenginn.

Sæstrengurinn er lengri en Nordlink, sem var tekinn í notkun í maí og var þá lengsti sæstrengur heims, 623 km, en hann tengir Noreg og Þýskaland. Áætlað er að hægt verði að nota sæstrenginn næstu hálfu öldina eð svo.

Financial Times segir að Norðursjávarstrengurinn gæti lagt grunn að mun stærri sæstrengsverkefnum í framtíðinni, svo sem Sun-strengnum milli Ástralíu og Singapúr, og Ice-link, hugsanlegum sæstreng milli Íslands og Bretlands.

Bretland er þegar tengt við Frakkland, Belgíu, Holland og Írland með sæstrengjum og áformar að leggja fleiri strengi til landa á meginlandi Evrópu, þar á meðal 765 km langan streng, Viking-strenginn, til Danmerkur sem stefnt er að því að taka í notkun árið 2024. Þá er áformað að ljúka við ElecLink, sæstreng milli Frakklands og Bretlands sem liggur um Ermarsund, á næsta ári.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »