Breyt­ing­arn­ar snú­a helst að þétt­ingu byggðar

Ástæðan fyrir tillögunum er sögð vera að sýnt hafi verið …
Ástæðan fyrir tillögunum er sögð vera að sýnt hafi verið fram á að þau landsvæði sem borgin hefur tekið frá undir íbúðarbyggð, atvinnusvæði og samgöngumannvirki geti dugað fram til 2040 „og sennilega mun lengur“. mbl.is

Tillögur að umfangsmiklum breytingum á Aðalskipulagi Reykjavíkur voru samþykktar í auglýsingu á fundi borgarstjórnar 15. júní. Þetta segir í tilkynningu borgarinnar.

Breytingarnar snúa einna helst að þéttingu byggðar en stefnt er að mikilli íbúðarbyggð innan þéttbýlis borgarinnar. „Auk þess eru boðaðar stöku breytingar á völdum atvinnusvæðum og samgönguinnviðum,“ segir í tilkynningunni.

Ástæðan fyrir tillögunni er sögð vera að sýnt hafi verið fram á að þau landsvæði sem borgin hefur tekið frá undir íbúðarbyggð, atvinnusvæði og samgöngumannvirki geti dugað fram til 2040 „og sennilega mun lengur“.

Græn borg að leiðarljósi

Tillagan var gerð í samræmi við leiðarljós svæðisskipulags til ársins 2040, meginmarkmið aðalskipulagsins og áform húsnæðisáætlunar. Þá tekur tillagan á uppbyggingu húsnæðis og fjölgun íbúa og starfa auk byggingar og styrkingar vistvænna samgöngukerfa til að mynda borgarlínu, hjólastíga og gönguleiða.

Tillögurnar eru því í takti við loftslagsstefnu borgarinnar til ársins 2040 og í samræmi við áherslur Græna plansins.

Þá segir að margar athugasemdir hafi komið fram við kynningu draga að tillögunum og komið hafi verið til móts við margar þeirra. Þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta eru þá hvattir til að kynna sér tillöguna og skila ábendingum og athugasemdum skriflega til umhverfis- og skipulagssviðs eigi síðar en 23. ágúst 2021.

Nánar má lesa um tillöguna hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert