Faðir fær að sjá dóttur þrátt fyrir ásakanir

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hæstiréttur dæmdi á miðvikudag í forsjárdeilu um barn sem annað foreldrið hafði sakað hitt um að hafa beitt kynferðisofbeldi og tálmun.

Hæstiréttur dæmdi á þá leið að fyrri dómur Landsréttar var staðfestur, um að móðir barnsins fengi forsjá yfir því, en það var hún sem sakaði barnsföður sinn um að hafa beitt barnið ofbeldi. 

Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti var gengið úr skugga um að barninu stæði þó ekki ógn af föður sínum og fór svo að hann fær umgengnisrétt yfir barninu.

Þá segir í dómi Hæstaréttar að það sé barninu fyrir bestu að það fái að umgangast báða foreldra sína. 

Það segir þrátt fyrir að í dómi Hæstaréttar megi finna lýsingar á þeim ásökunum sem móðir barnins beindi gegn barnsföðurnum. Vegna þeirra var hann handtekinn og yfirheyrður af lögreglu. Ásakanirnar hverfðust meðal annars um að manninum risi hold meðan hann skipti á barninu.

Dómkvaddur matsmaður úrskurðaði að báðum foreldrum væri stætt á að hafa umsjá með barninu. Í matsgerð segir:

„Það er álit matsmanns að báðir foreldrar séu hæfir til að fara með forsjá barnsins. Faðir hefur umfram móður að búa við meiri stöðugleika varðandi húsnæði og getur boðið barninu rík samskipti við nána ættingja þess. Móðir hefur umfram föður að hafa meiri reynslu og þekkingu í uppeldismálum. Varðandi ásakanir móður um að föður sé ekki treystandi fyrir barninu telur matsmaður rök hennar fyrir því ekki standast nánari skoðun.“

mbl.is