Hagkvæmast að nota kjúklingaskít við uppgræðslu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, opnar reiknivélina formlega á …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, opnar reiknivélina formlega á miðvikudag. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Ný reiknivél sem gerir fólki kleift að reikna loftslagsáhrif áburðarnotkunar var formlega opnuð á miðvikudag af Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, í höfuðstöðvum Landgræðslunnar í Gunnarsholti. 

Reiknivélin er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, en verkefnið var unnið í samstarfi við verkfræðistofuna EFLU með styrk frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu að því er fram kemur í tilkynningu. 

Dr. Magnús H. Jóhannsson sem hefur stýrt verkefninu segir að vélin geri kleift að finna út kostnað og loftslagsáhrif við notkun mismunandi áburðar. Til þess eru keyrðar saman upplýsingar um innhald næringarefna í áburðinum og fjarlægðir við flutning og dreifingu. Hægt er að vinna með fjölmargar tegundir lífræns áburðar og bera saman við tilbúinn áburð. Þannig fást upplýsingar sem nýtast við ákvarðanatöku og gerð áætlana um uppgræðslu út frá framboði lífrænna efna.

Reiknivélin sýnir að almennt er kolefnissporið sem fylgir notkun tilbúins áburðar stærra en frá lífrænum áburði. Þar vegur þyngst kolefnisspor framleiðslu tilbúins áburðar, en flutningur og dreifing vegur sáralítið í samanburði. Kolefnislosun vegna lífræna áburðarins er hins vegar aðallega fólgin í losun vegna flutnings og dreifingar og ræðst af næringarinnihaldi, þyngd og fjarlægðum til landgræðslusvæða.

Niðurstöður úr reiknivélinni sýna að miðað við fyrirliggjandi gögn og núverandi dreifingaraðferðir áburðar er hagkvæmast að nota kjúklingaskít við uppgræðslu. Það miðast við þær forsendur að flutningslengd sé innan 90 km fjarlægðar, að niturmagn sé um 150 kg á hektara og að tæknilega sé hægt að dreifa 4 tonnum á hektara.

mbl.is