Landsréttur sneri við 16 ára manndrápsdómi

Skyggnisbraut í Úlfarsárdal. Atvikið átti sér stað í desember árið …
Skyggnisbraut í Úlfarsárdal. Atvikið átti sér stað í desember árið 2019. mbl.is/Alexander Gunnar

Arturas Leimontas hefur verið sýknaður af ákæru um manndráp fyrir Landsrétti. Honum var gefið að sök að hafa veist með ofbeldi að Egidijus Buzleis, 9. desember árið 2019, og hent honum fram af svölum á íbúð sinni á þriðju hæð að Skyggnisbraut í Úlfarsárdal í Reykjavík.

Arturas hafði verið dæmdur fyrir manndráp í Héraðsdómi Reykjavíkur til 16 ára fangelsisvistar. Við áfrýjun málsins fór ákæruvaldið fram á að sá dómur yrði staðfestur.

Í dómi Landsréttar kemur fram að ekkert vitni bæri um það sem Arturas væri gefið að sök og sýnileg sönnunargögn sönnuðu ekki háttsemina. Meðal þess sem Arturas bar fyrir sig var að Egidijus hefði ætla að stökkva fram af svölunum með þeim hætti sem þeir höfðu lært í litháíska hernum, en þeir eru báðir Litháar. Það hafi síðan endað með fyrrgreindum afleiðingum.

Um þetta segir í dómi Landsréttar:

„Stökk í þessa veru gæti hafa orðið til þess að brotaþoli lenti þar sem hann lenti, í þeirri stellingu sem hann endaði í, auk þess sem það gæti skýrt áverkana á iljum brotaþola. Slíkt stökk væri hvorki að finna í greiningu sérfræðings lögreglu né dómkvadds matsmanns og lögregla virtist ekkert hafa rannsakað þennan möguleika frekar.“

Á þeim grundvelli taldi Landsréttur að ekki væri hafið yfir allan vafa að Arturas hafi gerst sekur um manndráp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert