Ofurölvi með átta ára barn

Skömmu eftir klukkan 19 í gær barst lögreglu tilkynning um ofurölvi par með átta ára barn við veitingastað í miðborginni. 

Faðir barnsins var handtekinn og síðan vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu fyrir brot á lögreglusamþykkt, en hann hafði ekki farið að fyrirmælum lögreglu. Fram kemur í dagbók lögreglu að málið hafi verið unnið með barnavernd. 

Kortér fyrir átta í gærkvöldi var tilkynnt um mann brjóta rúðu í bifreið í miðborginni. Á vettvangi var maðurinn, sem reyndist vera í mjög annarlegu ástandi, handtekinn. Maðurinn var vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu. 

Skömmu fyrir klukkan 23 var tilkynnt um ofurölvi mann sem lá í götunni í hverfi 108. Maðurinn vildi ekki gefa lögreglu upp dvalarstað sinn og var hann því handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu þar til ástand hans batnar. 

Um 23:20 var tilkynnt um líkamsárás í hverfi 108. Gestkomandi maður hafði veitt húsráðanda, sem var ung kona, áverka og síðan stolið úlpu, farsímum og fleiru. Árásaraðilinn var farinn þegar lögregla kom á vettvang. 

Tálmaði störf lögreglu 

Skömmu fyrir klukkan 1 í nótt var tilkynnt um líkamsárás í miðborginni. Ráðist hafði verið á tvo ölvaða menn og þeim veittir áverkar. Árásaraðilar voru sagðir vera 5-6 saman og voru farnir af vettvangi er lögregla kom. Árásarþolar ætluðu sjálfir á bráðadeild. 

Upp úr klukkan 1 í nótt var aftur tilkynnt um líkamsárás í miðborginni. Árásaraðilar voru sagðir vera tveir og voru farnir af vettvangi þegar lögregla kom þangað. Árásarþoli var fluttur á bráðadeild með sjúkrabifreið. 

Skömmu fyrir klukkan 2 í nótt datt maður af rafmagnshlaupahjóli í miðborginni. Hlaut hann áverka á andliti og var fluttur með sjúkrabifreið á bráðadeild. 

Klukkan 1:20 í nótt var ofurölvi stúlka handtekin í Grafarvogi. Stúlkan hafði tálmað störf lögreglu, fór ekki að fyrirmælum og reyndi að slá lögreglumann. Stúlkan var vistuð sökum ástands í fangageymslu lögreglu. Lögreglumenn voru á vettvangi ásamt sjúkraflutningamönnum að aðstoða aðra ofurölvi stúlku. 

mbl.is