Sá sem var stunginn verður yfirheyrður síðar í dag

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Júlíus

Farið verður fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manni sem grunaður er um aðild að hnífstungu á Ingólfstorgi aðfaranótt sunnudagsins síðasta.

Brotaþolinn, á tvítugsaldri, var fyrst um sinn hætt kominn og var haldið sofandi, en er nú á batavegi. Gerð verður tilraun til þess að ræða við brotaþolann síðar í dag.

Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. 

„Já, það verður farið fyrir dómara síðdegis í dag og farið fram á vikulangt gæsluvarðhald til viðbótar,“ segir Grímur. 

Spurður hvort grunur leiki á um að málið tengist skipulagðri glæpastarfsemi segir Grímur að það sé ekki til skoðunar, þótt aldrei sé hægt að útiloka það. Rannsóknin segir hann að gangi vel.

„Rannsóknin gengur bara vel, það er búið að ræða við mörg vitni í þessu máli en það hafa ekki fleiri verið handteknir og það eru ekki fleiri sakborningar í málinu í augnablikinu.“

mbl.is