Stakk mann ítrekað með dekkjasíl

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. Ljósmynd/Þór

Karlmaður var á miðvikudag dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir sérlega hættulega líkamsárás og fíkniefnalagabrot í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þá var maðurinn dæmdur til þess að greiða brotaþola 400 þúsund krónur í bætur. 

Maðurinn var sakfelldur fyrir að ráðast á kærasta barnsmóður sinnar í fjölbýlishúsi í febrúar 2019. Stakk hann brotaþola ítrekað með dekkjasíl í höfuð og líkama með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð yfir hægri augabrún, vinstra eyra og stungusár á baki. 

Þá var hann sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum 24,52 grömm af maríjúana og 4,58 grömm af amfetamíni sem lögregla fann við leit á ákærða eftir að höfð voru afskipti af honum auk 15,85 gramma af amfetamíni, 2,02 gramma af MDMA og níu MDMA-taflna sem fundust í plastboxi á gólfi stigagangs fjölbýlishússins þar sem árásin varð. 

Lögreglu hafði verið tilkynnt um hávaða og öskur sem bárust frá stigagangi fjölbýlishússins snemma morguns 9. febrúar 2019. Þegar lögregla kom á vettvang voru tveir menn í átökum á gólfi stigagangsins á jarðhæð og voru þeir báðir útataðir í blóði og með sýnilega áverka. 

Í málinu þótti framburður brotaþola hafa verið stöðugur um að ákærði hefði að fyrra bragði ráðist á hann og hann hafi síðan áttað sig á að hann hefði verið stunginn. Ekki var fallist á að skilyrði neyðarvarnar væru uppfyllt vegna háttsemi mannsins. 

mbl.is