Stutt í að hraun flæði úr Nátthaga

Aðgengismál að eldgosinu eru til skoðunar.
Aðgengismál að eldgosinu eru til skoðunar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þessir leiðigarðar halda enn. Svo munum við bara ráða ráðum okkar með framhaldið. Það styttist í að hraun flæði úr Nátthaga og niður á veg,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, í samtali við mbl.is.

Hann segir erfitt að segja til um hve langt sé í að hraunið nái að veginum. „Það er mismikil virkni á milli dala en það er talið að það séu kannski einn til fjórir dagar í að þetta fari úr Nátthaga,“ segir Rögnvaldur. 

Mögulegar gönguleiðir fari að skýrast

„Eins og vitað er flæðir hraun yfir gönguleið A og gönguleið B er ekki eins vel úr garði gerð. Það er spurning hvort fara eigi í að laga hana og þá hvar. Hvort eigi að halda sig við núverandi leið eða finna betri leið,“ segir Rögnvaldur.

Hann segir að verið sé að reyna að líta til þess að ekki verði gerð gönguleið sem verði ónothæf eftir nokkrar vikur og að horfa þurfi til mögulegrar þróunar gossins. 

Þá segir Rögnvaldur að landeigendur og sveitarfélög hafi legið yfir möguleikum í aðgengismálum í vikunni og líklegt að niðurstöður muni liggja fyrir eftir helgi. 

Gönguleið A er enn lokuð og torfær. Rögnvaldur segir að fyrir marga sé upplifun að sjá flæðandi hraunið og finna hitann og til þess er nóg að ganga í Nátthaga. Þangað er um 10-15 mínútna ganga frá bílastæði. 

Stutt er þar til hraun mun renna úr Nátthaga og …
Stutt er þar til hraun mun renna úr Nátthaga og að vegi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðgengi fyrri viðbragðsaðila takmarkað

„Viðbragðsaðilar eru ekki lengur með neina aðkeyrsluleið upp að gosi. Það er eitt af því sem við erum í vandræðum með. Það er ekki hægt að sækja fólk á bílum eða fjórhjólum með góðu móti eins og við höfum getað gert,“ segir Rögnvaldur. 

Þegar gosið hófst í Geldingadölum var gott aðgengi fyrir breytta bíla í Meradölum. Sú leið er í dag kolófær vegna hraunflæðis. Önnur leið fyrir viðbragðsaðila lá við Stóra-Hrút, hún er nú ónothæf. 

Frá Geldingadölum.
Frá Geldingadölum. Kristinn Magnússon

Þriðja úrræðið var að keyra gönguleið A í neyðartilvikum. Nú er það ekki heldur hægt. Eftir stendur einungis gönguleið B og er hún ekki fær ökutækjum. 

Staðan er sú að einungis torfær gönguleið er fær, nokkuð hefur verið um útköll á gossvæðið en aðgengi viðbragðsaðila er slæmt. Spurður hvort þetta ástand sé hálfgerð neyð segir Rögnvaldur svo ekki vera. 

„Þetta er ekki neyðarástand. En þetta er flóknara úrlausnar,“ svarar Rögnvaldur. 

mbl.is