„Það fór hrollur um mann“

Frá leit við Þingvallavatn árið 2019.
Frá leit við Þingvallavatn árið 2019. mbl.is/Sigurður Bogi

Viðar Arason, sem er í aðgerðastjórn björgunarsveita á Suðurlandi, segir að hrollur hafi farið um sig þegar hann vissi að stúlkur sem fastar voru á bát á Þingvallavatni í morgun myndu synda til lands.

„Það er mikil hetjudáð af stelpunum að treysta sér í sund í þessu ískalda vatni,“ segir hann. „Ég þekki ekki hvernig þær eru líkamlega á sig komnar en þær hljóta að vera vel á sig komnar því að sagan segir að Þingvallavatn sé mjög kalt og mjög fljótt að draga af þér.“ Stúlkurnar voru ekki langt frá landi og ráðfærðu sig við viðbragðsaðila áður en þær stungu sér til sunds. 

Útkall í hæsta forgangi

Björgunarsveitir frá Suðurlandi fengu útkall í hæsta forgangi frá Neyðarlínu kl. 7:13 í morgun vegna þriggja stúlkna sem voru úti á Þingvallavatni í uppblásnum gúmmíbát sem lak. „Þegar útkallið er að þrír einstaklingar séu á báti á Þingvallavatni þá er náttúrulega bara öllu tjaldað til,“ segir Viðar.

Björgunarsveitir í Árnessýslu voru ræstar út, ásamt sjúkraflutningum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, lögreglunni á Suðurlandi, köfurum og sjúkrabíl frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins ásamt köfurum sérsveitarinnar. Þá var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út og þjóðgarðsverðirnir brugðust hratt og vel við að sögn Viðars.

Betur fór en á horfðist því stúlkurnar komust í land og voru fluttar til aðhlynningar á bráðamóttökuna á Selfossi.

Þingvallavatn.
Þingvallavatn. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þingvallavatn er stórhættulegt“

Viðar segir að Þingvallavatn sé stórhættulegt og fólk ætti ekki að fara þangað út á báti nema vera vel búið og þekkja til aðstæðna. Vatnið sé mjög kalt allt árið, í kringum fjórar gráður. Ef norðanátt eða blástur hefði verið í dag hefði bátinn getað rekið út á vatni og þá hefði atvikið orðið mun alvarlegra segir hann.

„Því miður er búið að vera svolítið síðustu árin að við séum að fá alvarleg útköll á Þingvallavatn þar sem bátar sem eru hreinlega ekki tilbúnir til að fara á vatnið eru að leggja í hann,“ segir Viðar.

Tæp tvö ár eru síðan belgískur ferðamaður lést í Þingvallavatni eftir að hafa líklega fallið út fyrir. Leit að honum stóð yfir í mánuð. 

Þingvallavatn.
Þingvallavatn. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is