„Þetta var eftir minni bestu samvisku“

Haraldur Briem, fyrrum sóttvarnalæknir.
Haraldur Briem, fyrrum sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

„Ég fór á eftirlaun árið 2015, þegar ég varð 70 ára. Síðan þá hef ég verið beðinn um að taka að mér ýmis verkefni, bæði fyrir [heilbrigðis]ráðuneytið og embætti landlæknis. Ég hef verið öllum óháður að mínu mati,“ segir Haraldur Briem, fyrrverandi sóttvarnalæknir og höfundur skýrslu um breyt­ing­ar á skipu­lagi og fram­kvæmd skimun­ar fyr­ir krabba­meini í leg­hálsi. 

Stjórn Félags íslenskra rannsóknarlækna ályktaði fyrr í dag að Haraldur gæti vart talist óháður aðili við skýrsluskrifin þar sem hann væri ritari skimunarráðs og fyrrum sóttvarnalæknir, sem starfaði þannig undir Birgi Jakobssyni, fyrrum landlækni, sem í dag er aðstoðarmaður Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. 

Hlutverkið verið að kalla saman fólk 

Hann segir aðdraganda þess að hann hafi verið ritari skimunarráðs einungis vera sá að þar hafi þurft að kalla til hóp sérfróðra og hann hafi verið þar á meðal. Hans hlutverk hafi einungis snúið að ritarastörfum.

„Þetta eru allt sérfræðingar og fagmenn. Það er fjöldi manna sem kemur að þessu. Ritari gerði ekkert annað en að kalla fólk saman og reyna að fá niðurstöður í málin,“ segir Haraldur. 

Hann segist ekki getað séð hvernig störf hans sem ritari hafi gert hann háðan nokkrum. 

Spurður hvort samband hans við Birgi Jakobsson, aðstoðarmann Svandísar, sé eitthvað sem hefði getað gert hann vanhæfan í sinni vinnu segir hann ekki svo vera.

„Já já, við áttum ágætissamstarf þegar hann var og hét í þessu embætti. Ég hef síðan unnið með Ölmu Möller.“

Hefur unnið við skimunarmál frá 2008

Haraldur rifjar upp að hans aðkoma að skimunarmálum hefjist árið 2008. „Þá var það þannig að við vorum að reyna að koma á bólusetningum við HPV-veirunni sem veldur leghálskrabbameini. Leghálskrabbamein er afleiðing smitsjúkdóms og þar hófst aðkoma mín. Þá vorum við líka beðin um að fara yfir skimanir og bólusetningar almennt. Við skiluðum skýrslu árið 2008.“

Félag sérfræðilækna gagnrýnir einnig að hann hafi ekki leitað eft­ir upp­lýs­ing­um frá Land­spít­al­an­um, Krabba­meins­fé­lag­inu eða sér­greina­fé­lög­um lækna við vinnslu skýrslunnar. 

Haraldur svarar því til að hann þekki vel til málsins. Í fagráði og skimunarráði vinni fagfólk úr öllum áttum og málið sé sér ekki framandi. „Tímaramminn var nokkuð stuttur og ég einbeitti mér bara að þeim gögnum sem lágu fyrir,“ segir Haraldur. 

Hann hvetur fólk til að kynna sér skýrsluna. 

„Þetta var eftir minni bestu samvisku og ég vona að hún upplýsi málið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert