Beint: Brautskráning frá Háskóla Íslands

Brautskráningarathafnirnar verða tvær.
Brautskráningarathafnirnar verða tvær. mbl.is/Ómar

Yfir 2.500 manns útskrifast í dag úr grunn- og framhaldsnámi við Háskóla Íslands. Aldrei hafa fleiri útskrifast frá skólanum. Eins og í fyrra verður brautskráning með sérstöku sniði vegna fjöldatakmarkana stjórnvalda.

Brautskráningarathafnir verða tvær og fara fram í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal (nýju Laugardalshöllinni) að þessu sinni. Einungis kandídatar, sem taka á móti brautskráningarskírteinum sínum, verða við athafnirnar.

Bein útsending verður því frá þeim báðum hér:

Klukkan 10 og 13.30

Á fyrri brautskráningarathöfninni, sem hefst kl. 10, fá kandídatar í grunn- og framhaldsnámi frá félagsvísindasviði og verkfræði- og náttúruvísindasviði útskriftarskírteini sín. Samtals brautskrást 736 frá félagsvísindasviði og 287 frá verkfræði- og náttúruvísindasviði.

Seinni athöfnina, sem hefst kl. 13.30, sækja kandídatar í grunn- og framhaldsnámi frá heilbrigðisvísindasviði, hugvísindasviði og menntavísindasviði. Þar brautskráist 671 frá heilbrigðisvísindasviði, 298 frá hugvísindasviði og 556 frá menntavísindasviði.

Samanlagt verður 1.621 kandídat brautskráður úr grunnnámi að þessu sinni og 927 úr framhaldsnámi. Alls munu því 2.548 kandídatar útskrifast frá Háskóla Íslands í dag en það er langmesti fjöldi sem skólinn hefur brautskráð í einu lagi. Til samanburðar voru kandídatarnir 2.050 í fyrra.

Iðnaðarlíftækni og líftölfræði

Í tilkynningu frá skólanum segir að í hópi brautskráningarkandídata nú séu fyrstu nemendurnir sem ljúka meistaranámi í iðnaðarlíftækni, sem Háskóli Íslands býður upp á í samstarfi við lyfjafyrirtækið Alvotech. Jafnframt tekur fyrsti nemandinn sem lýkur meistaranámi í líftölfræði við brautskráningarskírteini sínu og sama má segja um fyrsta nemandann með meistarapróf í faraldsfræði. Enn fremur ljúka fyrstu nemendurnir viðbótardiplómanámi í hagnýtri skjalfræði.

Eins og áður mun Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, flytja ávarp við athöfnina og þá munu Ingvar Þóroddsson, BS í rafmagns- og tölvunarverkfræði, og Valdís Huld Jónsdóttir, MS í iðnaðarlíftækni, ávarpa gesti fyrir hönd brautskráningarkandídata á athöfnunum tveimur. Tónlistarkonan Bríet stígur á stokk á fyrri athöfninni og skemmtir gestum ásamt Rubin Pollock og á þeirri seinni treður Jónas Sigurðsson upp ásamt Ómari Guðjónssyni.

Háskóli Íslands brautskráði 467 kandídata í febrúar síðastliðnum og því hafa alls 3.015 útskrifast frá skólanum það sem af er ári.

mbl.is