Íslendingur missti allt í eldsvoða í New York

Kolbrún Yrr Rolandsdóttir varð fyrir því áfalli í nótt að …
Kolbrún Yrr Rolandsdóttir varð fyrir því áfalli í nótt að íbúð hennar í New York-borg gjöreyðilagðist í eldsvoða. Ljósmynd/Samsett

Kolbrún Yrr Rolandsdóttir lenti í þeirri hræðilegu lífsreynslu í gærnótt að íbúðin hennar í New York-borg brann til kaldra kola. Slökkviliðsmenn á svæðinu segja hana gríðarlega heppna að hafa ekki verið á staðnum þegar eldur kviknaði, þar sem þakið á íbúð hennar féll niður á rúmið hennar. Kolbrún var stödd hjá kærasta sínum sem á heima í Brooklyn á meðan eldar loguðu. 

Eldurinn kviknaði í íbúð nágranna hennar, sem Kolbrún segist ekki vera hissa á, eins og hún útskýrir í samtali við mbl.is.

„Ég er með nágranna sem er búinn að valda þvílíkum usla þannig að það kom engum á óvart þegar eldurinn byrjaði í húsinu hans. Hann á við geðræn vandamál að stríða. Það er búið að reyna að henda honum út en það má ekki út af Covid. Við höfum staðið í ströngu með lögfræðingum að tilkynna hegðun hans,“ segir Kolbrún.

Inga Sigríður Snorradóttir, vinkona Kolbrúnar, vakti athygli á hræðilegum aðstæðum vinkonu sinnar á facebooksíðu sinni. Söfnun hefur verið komið af stað til styrktar Kolbrúnu.

Möguleg íkveikja að mati Kolbrúnar

Kolbrún segist ekki viss hvort um slys var að ræða eða hvort nágranni hennar hafi hreinlega kveikt í sjálfur. 

„Það er ekkert víst að slökkviliðið hefði komist í íbúðina mína, þar sem ég er með fjóra lása vegna þess hve hrædd ég er við þennan mann þar sem hann er svo óstöðugur. Við vorum ekki viss um hvort hann hefði kveikt í bensíni út af því að það átti að fara henda honum út eða hvort þetta tengist eitthvað rafmagni. Hann var ekki með rafmagn en hefur eitthvað verið að fikta með einhverjar framlengingarsnúrur uppi á þaki og tengt þær svo inn í íbúðina sína. Hann var einhvern veginn að stela rafmagni.“

Kolbrún segir þar að auki að slökkvilið New York-borgar hafi ekki séð annan eins eld í langan tíma og útskýrir að illa hefði getað farið. Til að mynda voru á íbúð hennar fjórir lásar og því þurftu viðbragðsaðilar að brjóta sér leið inn.

„Hann er til alls líklegur en alla vega kviknaði í íbúðinni hans rétt fyrir miðnætti og margir farnir að sofa. Það þurfti að brjóta upp allar hurðir og koma öllum út. Slökkviliðið sagðist ekki hafa séð svona eld í langan tíma.“

Gat ekki talað ensku

Kolbrún segist vera í algjöru áfalli eftir brunann. 

„Heimilið fyrir okkur Íslendinga er svo mikill griðastaður, það að missa það er áfall sem maður getur ekki ímyndað sér fyrir fram. Ég spáði ekki einu sinni í því að borða og mig langaði bara heim til mömmu. Ég gat ekki einu sinni talað ensku, það kom bara íslenskur hreimur og ég var bara í algjöru áfalli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert