Sonur forsetahjónanna fyrstur niður Nova-línuna

Mikil stemning var við opnun fluglínu Nova í dag.
Mikil stemning var við opnun fluglínu Nova í dag. mbl.is/Arnþór

Fluglína Nova frá Perlunni í Reykjavík var opnuð formlega í dag í Öskjuhlíðinni. Fyrsta ferðin var farin klukkan tvö og var plötusnúður á staðnum til þess að halda uppi stemningunni.

Sonur forsethjónanna, Guðna Th. Jóhannssonar og Elizu Reid, og bílstjóri þeirra, Ríkharður Már Ríkharðsson, voru þeir fyrstu til þess að renna sér niður.

„Sonur forsetahjónanna og bílstjóri þeirra fóru fyrstu ferðina, þeir skutluðust alveg niður og það var alveg gríðarlega gaman að fylgjast með. Síðan voru fleiri sem fóru í kjölfarið; Birgitta Líf Björnsdóttir áhrifavaldur, söngkonan Gugusar og fleiri stuðboltar hentu sér niður,“ segir Katrín Aagestad Gunnarsdóttir, markaðsstjóri Nova, í samtali við mbl.is.

Útsýnið er ekki dónalegt.
Útsýnið er ekki dónalegt. mbl.is/Arnþór

Mikil eftirspurn var eftir ferðum með línunni og öll pláss uppbókuð í dag. Aðeins örfá pláss eru eftir á morgun.

„Það var bara strax fullbókað í dag, sem sýnir greinilega að það sé mikil stemning fyrir þessari nýjung í Reykjavík,“ segir Katrín.

Línan er 230 metra löng og er strengd frá einum af sex tönkum Perlunnar og alveg niður í Öskjuhlíðarskóg. Tveir geta farið í einu og keppt á milli sín hver verður fyrstur niður.

„Þetta eru tvær línur þannig að þú getur farið samferða einhverjum góðum félaga og farið í kapp niður. Sá sem er þyngri fer aðeins hraðar, þú getur náttúrlega fengið þér stóra máltíð fyrir til þess að láta nú eitthvað vinna með þér,“ segir Katrín og hlær.

Einn, tveir og af stað!
Einn, tveir og af stað! mbl.is/Arnþór

Hún bætir við að langt sé síðan hugmyndin kom upp en loks hafi þau náð að framkvæma hana og það á mettíma.

„Þetta gerðist ótrúlega hratt; á bara nokkrum mánuðum er fluglínan risin og hún er komin til að vera og við stefnum á að hafa hana opna allt árið.“

mbl.is