Guðjón er Reykvíkingur ársins

Guðjón ásamt Degi borgarstjóra við Elliðaárnar í morgun.
Guðjón ásamt Degi borgarstjóra við Elliðaárnar í morgun. mbl.is/Unnur Karen

Guðjón Óskarsson, rúmlega sjötugur Reykvíkingur, hefur verið valinn Reykvíkingur ársins. Nafnbótina hlýtur hann fyrir starf sitt við að hreinsa gangstéttir borgarinnar af tyggjóklessum.

Frá þessu greinir borgin í tilkynningu. Bent er á að Guðjón hafi hafist handa við verkið í fyrra þegar hann missti vinnu sína við ferðaþjónustu vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Síðan hefur hann unnið ötullega að því að hreinsa gangstéttir og torg af tyggjói sem fólk hefur losað sig við á auðveldan máta í stað þess að henda í ruslafötur.

Guðjón er orðinn sjötugur og hann segir starfið auðvelda sér að halda sér í formi. Hann hreyfi sig og sé úti við í nokkra klukkutíma á hverjum degi.

Tyggjóklessuhreinsunin átti fyrst í stað að vera tíu vikna átak og ákvað Guðjón að telja tyggjóklessurnar sem hann hreinsaði upp. Hann er enn að telja og útkoman er sú að hann hefur hreinsað upp yfir 56 þúsund klessur.

Laxinn gaf sig ekki að þessu sinni.
Laxinn gaf sig ekki að þessu sinni. mbl.is/Unnur Karen

800 öðrum megin götunnar

„Ég nota vél sem leysir upp tyggjóið við 100 gráðu hita og með sérstöku efni. Þetta er 100 prósent umhverfisvæn aðferð enda fór ég í átakið vegna þess að mér þótti ástandið vera svolítið svakalegt á sumum stöðum í miðborginni. Ég taldi t.d. tyggjóklessurnar sem ég hreinsaði upp í Ingólfsstræti á fyrsta degi. Þær voru nærri því 800 bara öðrum megin götunnar,“ segir hann brosandi.

Hann segir að krakkar í bænum taki honum mjög vel.

„Þegar þau sjá mig hrópa þau gjarnan „Vei, tyggjókarlinn,“ segir Guðjón. „Ég tel að unga kynslóðin sé orðin mjög meðvituð um að henda ekki tyggjói á gangstéttir heldur koma því í ruslið.“

Sóðaskapur og vont fyrir umhverfið

Guðjón er búinn að fara nokkrar umferðir um miðborgina í tyggjóhreinsuninni og fer til dæmis reglulega niður Skólavörðustíg. Því miður eru alltaf komnar nýjar klessur þegar hann á leið um en hann segir að þeim fari fækkandi. „Ætlun mín var alltaf að vekja athygli á þessu vandamáli með átakinu. Þetta er sóðaskapur og vont fyrir umhverfið. Ég er umhverfissinni og vona að fólk geri mig atvinnulausan með því að hætta að henda tyggjói á göturnar. Ég hef hins vegar alltaf unnið og ætla ekkert að hætta því á meðan ég get.“

Guðjón er ánægður með þann heiður að vera valinn Reykvíkingur ársins 2021. Hann er sá ellefti í röðinni sem hlýtur nafnbótina. Hann opnaði Elliðaárnar í boði Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og Stangaveiðifélags Reykjavíkur í morgun.

Veiðin var þó treg og Guðjón fékk ekki lax á meðan hann reyndi sig við veiðarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert