Þórdís glöð og þakklát yfir sigrinum

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra, segist bæði glöð og þakklát yfir sigri sínum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, en úrslit voru kunngjörð í nótt. 

Hún skákaði þar með sitjandi oddvita, Haraldi Benediktssyni, sem varð annar. 

„Ég get ekki verið annað en glöð og þakklát með svona afgerandi sigur og stuðning í fyrsta sætið,“ segir Þórdís, sem fagnaði með stuðningsmönnum sínum og fjölskyldu í nótt.

Hún segist gleðjast yfir þeirri staðreynd að aldrei hafi þrjár konur áður leitt lista flokksins fyrir þingkosningar. Sjálf er hún oddviti í Norðvesturkjördæmi, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir verður oddviti í Reykjavíkurkjördæmi suður að öllum líkindum og Guðrún Hafsteinsdóttir mun leiða Suðurkjördæmi. 

„Þetta eru sterkir listar finnst mér, þetta er fjölbreyttur hópur, bæði endurnýjun og svo reynsla. Ég merki það að Sjálfstæðisflokkurinn treystir bæði ungu fólki og konum og það finnst mér skipta máli og ég tel að kjósendum finnist það líka skipta máli.“

Segir Harald ekki kvenfyrirlitinn mann

Haraldur Benediktsson, fráfarandi oddviti, vakti athygli nýverið þegar hann sagðist ekki mundu þiggja annað sæti á lista flokksins í kjördæminu, fari svo að hann beri ekki sigur úr býtum. Einhverjir merktu frekju eða kvenfyrirlitningu í ummælum hans, en því er Þórdís ósammála. Hún segir samstarf hennar og Haralds undanfarin ár hafa verið gott.

„Haraldur Benediktsson er ekki maður með einhverja kvenfyrirlitningu og ég þekki hann vel og veit hvaða mann hann hefur að geyma. Fólk hafði á þessari yfirlýsingu miklar skoðanir og í raun ætti það kannski ekki að koma svo mikið á óvart.“

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haraldur verður að ákveða sjálfur

Að auki segir Þórdís að Haraldur verði sjálfur að ákveða hvort hann þiggi annað sætið á lista flokksins. Hún segist ekki munu finna að því að fyrrum oddviti starfi við hlið nýs oddvita.

„Við höfum starfað hlið við hlið fyrir Sjálfstæðisflokkinn undanfarin ár og höfum unnið vel saman. Og ég held að Haraldur einn geti í raun svarað þessari spurningu,“ segir Þórdís um hvort Haraldur eigi að þiggja annað sætið.

„Kjósendur hafa sagt sinn hug og hann endar í öðru sæti og það er þá vilji kjósenda í kjördæminu, en það er þá ekki vandamál fyrir mig að starfa áfram með Haraldi Benediktssyni – það hefur gengið vel fram til þessa og ég myndi gera það áfram.“

Óvissan erfið

Þórdís segir svo að óvissan um hvort Haraldur þiggi annað sætið sé erfið, þar sem ákvörðun hans ráði úrslitum fyrir aðra frambjóðendur prófkjörsins, sérstaklega þá Teit Björn Einarsson, fyrrum þingmann sem hafnaði í þriðja sæti, en færist þá væntanlega í annað sætið ef Haraldur hafnar öðru sætinu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú tvo þingmenn í Norðvesturkjördæmi.

Teitur Björn Einarsson. Það veltur mögulega á ákvörðun Haraldar Benediktssonar …
Teitur Björn Einarsson. Það veltur mögulega á ákvörðun Haraldar Benediktssonar hvort Teitur komist á þing. mbl.is/Eggert

„Þetta er erfitt fyrir mig af því ákvarðanir hans hafa síðan áhrif á aðra frambjóðendur sem munu þá taka sæti á framboðslista, sem hafa líka metnað til þess að komast á þing. Þannig að ég var að óska eftir skýru umboði til þess að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu og ég fékk rosalega sterkt umboð til þess og traust. Og að öðru leyti lagði ég áherslu á að það yrðu kjósendur sem fengju að velja, svo verður Haraldur bara að svara fyrir það,“ segir Þórdís.

Aðspurð segist Þórdís ekki hafa rætt við Harald í nótt og í dag og að hún hafi einnig rætt við aðra frambjóðendur prófkjörsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert