Ung kona reyndi að hlaupa frá lögreglu

Frá Grafarvogi.
Frá Grafarvogi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu veitti bifreið eftirför í Grafarvogi á áttunda tímanum í gærkvöldi, eftir að ökumaður hafði ekki stöðvað bifreiðina þegar lögreglan gaf um það merki.

Bifreiðinni var ekið yfir gras og eftir gangstéttum en var að lokum stöðvuð. Ökumaðurinn reyndist þá ung kona, sem reyndi um leið að hlaupa frá vettvangi.

Konan var handtekin og er hún grunuð um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, auk þess sem hún þykir ekki hafa farið að fyrirmælum lögreglu, ásamt fleiri umferðarlagabrotum.

Fíkniefni, ölvun og án ökuréttinda

Um tveimur klukkustundum áður hafði ótryggð bifreið verið stöðvuð í miðborginni. Voru skráningarnúmer tekin af henni. Á sama tíma var bifreið stöðvuð í Hafnarfirði og er ökumaðurinn grunaður um ölvun við akstur.

Klukkan ellefu í gærkvöldi var önnur bifreið stöðvuð í miðborginni. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum og brot á lyfjalögum.

Skömmu síðar var bifreið stöðvuð í Háaleitis- og Bústaðahverfi. Er ökumaður hennar grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og vörslu fíkniefna.   

Loks var bifreið stöðvuð í Mosfellsbæ á öðrum tímanum eftir miðnætti. Sá ökumaður er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna.

mbl.is