Verjandi segir sýknudóminn réttan

Arnar Kormákur Friðriksson, lögfræðingur hjá Íslensku lögfræðistofunni.
Arnar Kormákur Friðriksson, lögfræðingur hjá Íslensku lögfræðistofunni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Verjandi Arturas Leimontas, Arnar Kormákur Friðriksson, segir sýknudóminn yfir skjólstæðingi sínum réttan og hann staðfesti að óupplýst sé hvað gerðist daginn sem Egidijus Buzleis féll af svölunum. Hann kveðst ánægður með niðurstöðuna enda hafi Arturas lýst sig saklausan og neitað sök frá upphafi. Egidijus lést eftir fall af svölum íbúðar á þriðju hæð í Úlfarsárdal.

Arturas var sakfelldur í héraði fyrir manndráp og dæmdur í 16 ára fangelsi. Landsréttur sneri niðurstöðunni nú á föstudag og vísaði meðal annars til þess að sá möguleiki að Buzleis hefði verið að framkvæma herstökk hefði ekki verið rannsakaður nægjanlega vel. Bæði Arturas og Buzleis voru í litháíska hernum. Landsréttur taldi þá kenningu einnig ríma betur við áverka Buzleis á fótum og iljum. Var því ákæruvaldið ekki talið hafa sannað, svo hafið væri yfir skynsamlegan vafa, að Arturas hefði hrint eða kastað Buzleis af svölunum.

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari sagði í viðtali við mbl.is að  hann hefði verið svolítið hissa á dóminum og lýsti yfir efasemdum um þá tilgátu að hinn látni hefði verið að framkvæma herstökk.

Skýrir ekki deilurnar

„Það er alveg ljóst að ef hann var að reyna að stökkva þarna fram af, einn og að gamni sínu, eins og hann hafði lært í sovéska hernum þrjátíu árum áður, þá skýrir það ekki þessar deilur milli hans og ákærða.“

Arnar segir ekki líklegt að dómurinn fái áfrýjunarleyfi hjá Hæstarétti:

„Ég tel afar ólíklegt að ríkissaksóknari óski eftir áfrýjunarleyfi þar sem Hæstiréttur endurskoðar ekki niðurstöður sem byggðar eru á sönnunargildi munnlegs framburðar.
Þá var bæði héraðsdómur og Landsréttur skipaður sérfróðum meðdómendum, en því verður ekki við komið í Hæstarétti.“

Spurður hvort þeir Arturas hyggi á skaðabótamál segir Arnar það ekki hafa verið rætt sérstaklega „en ljóst að hann á rétt á skaðabótum eftir að hafa sætt gæsluvarðhaldi og farbanni að ósekju í lengri tíma“.

Arturas sat í gæsluvarðhaldi frá 9. desember til 21. janúar en þá úrskurðaði Landsréttur Arturas í farbann sem var framlengt til 3. júní þegar ákæra var gefin út.

mbl.is