„Við gengum eins langt og við gátum“

Í viðtali Edwards við Kveik ýjaði Ingólfur að því að …
Í viðtali Edwards við Kveik ýjaði Ingólfur að því að Edwards væri ekki raunverulegur eigandi setursins.

Ingólfur Bjarni Sigfússon segir þáttagerðarmenn Kveiks hafa gengið eins langt og þeir gátu til þess að komast til botns í máli Michelle Roosevelt Edwards, áður Michelle Ballarin, sem tjáði honum í viðtali að hún ætti 30 milljóna dala herrasetrið í Virginíu í Bandaríkjunum, þar sem viðtalið var tekið upp.

Hulunni var þó svipt af lygi Edwards um eignarhald hennar á setrinu í ítarlegri fréttaskýringu Washington Post, þar sem rætt var við raunverulegan eiganda setursins, ónefnda ekkju fjárfestisins David B. Fords, sem virtist hissa að sjá Edwards inni á eigin heimili þegar henni var sýnt viðtal Kveiks við Edwards.

Edw­ards hef­ur verið í kast­ljósi ís­lenskra fjöl­miðla síðustu ár, þar sem hún kveðst ætla að end­ur­reisa hið fallna lággjalda­flug­fé­lag WOW Air.

Lá ekki fyrir hvar viðtalið yrði tekið

„Það er áhugavert að sjá hvernig bandarískir fjölmiðlar, meðal annars Washington Post, finna viðtalið sem við tókum við hana og greinilega nota það til að undirstrika það hvað hún er skrautlegur karakter,“ segir Ingólfur þegar blaðamaður innir eftir viðbrögðum hans við fréttaskýringu Washington Post.

Í viðtali Edwards við Kveik ýjaði Ingólfur að því að Edwards væri ekki raunverulegur eigandi setursins þar sem viðtalið við hana var tekið upp. Þegar blaðamaður innti eftir því hvort þáttagerðarmenn Kveiks hefðu getað kafað dýpra ofan í málið segir Ingólfur þá hafa reynt allt.

„Við gengum eins langt og við gátum í að segja að við gátum ekki fundið neitt sem benti til þess að hún ætti þessa fasteign. Að vísu lá ekki fyrir hvar við mundum taka viðtalið fyrr en bara kvöldið áður þannig að tíminn sem við höfðum til að geirnegla það var frekar takmarkaður áður en viðtalið var tekið. Það var fátt sem benti til þess að þarna byggi einhver, síst af öllu hún.“

Hafði ekkert í höndunum

Þá segir Ingólfur þáttagerðarmenn Kveiks hafa fullreynt að fá upplýsingar um það hvort Edwards væri raunverulegur eigandi seturins. Það hafi þó reynst erfitt að hafa uppi á ekkju manns sem Edwards sagðist hafa keypt setrið af.

„Þetta endar í raun og veru þar sem eignarhaldsfélagið Warrington LLC endar, þ.e. félagið sem á þetta hús og var í eigu þessa auðmanns sem Washington Post vitnar til. Það var engin leið til að hafa upp á fulltrúa hans til að sjá hvort það félag hafi verið selt. Fulltrúar Michelle gáfu til kynna að hún hefði keypt þetta félag en þeir gátu svo sem ekkert sýnt fram á það. Ég hafði hins vegar ekkert í höndunum sem sýndi fram á að hún hefði ekki gert það. Þetta virtist frekar ólíklegt allt saman en að finna ekkjuna var eiginlega út fyrir efni innslagsins, sem snerist fyrst og fremst um WOW og það sem Michelle var að gera. Það var alla vega ekki aðalatriðið í umfjölluninni.“

Gengur ekki eftir

Spurður hvaða ályktun megi draga af þeirri staðreynd að Edwards hafi logið til um eignarhald á setrinu segir Ingólfur orð Edwards oft vera innantóm og að mögulega eigi hún ekki innistæðu fyrir því sem hún segist ætla að gera.

„Það er alla vega alveg ljóst, eins og við svo sem sýndum í innslaginu, að margt af því sem hún segir og segist iðulega ætla að gera gengur ekki eftir. Viðskiptahugmyndir, fyrirheiti eða bara það að ætla greiða fólki laun, það einhvern veginn verður alltaf frekar lítið úr því. Óneitanlega fær maður þá á tilfinninguna að það sé þá kannski að einhverjum hluta til vegna þess að peningurinn sem til þarf sé einfaldlega ekki til staðar. Að minnsta kosti verður aldrei neitt úr neinu hjá henni.“

mbl.is