Bólusetning AstraZeneca frestast um viku

Bólusetning á AstraZeneca frestast um viku.
Bólusetning á AstraZeneca frestast um viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins, segir að bóluefni AstraZeneca muni ekki berast fyrr en á föstudag eða laugardag og því víst að ekki verði bólusett á fimmtudag með efninu líkt og stóð til.

„Við vitum ekki alltaf nákvæmlega hvenær efnin berast. Við erum að reyna að hafa fyrirsjáanleika í ófyrirséðum aðstæðum,“ segir Ragnheiður.

Á morgun verður bólusett á höfuðborgarsvæðinu með Janssen og er haldið áfram með handahóf aldurshópa. Boð hafa fengið: karlar 1990, 1991, 1995, 1998, og konur 1985, 1989, 1990, 1991, 1995, 1999. Eftir kl. 14 geta þau komið sem eiga eldra boð í Janssen-bóluefnið, meðan birgðir endast.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Árni Sæberg

Að sögn Ragnheiðar verður staðan skoðuð eftir morgundaginn, hvort haldið verður áfram með Janssen-bólusetningu á fimmtudaginn. „Ef við sjáum að það verði stöðugur straumur af fólki eftir kl. 14 á morgun sem við ráðum ekki við, þá skellum við í lítinn Janssen-dag á fimmtudag,“ segir Ragnheiður og bætir við að heilsugæslan eigi um fimm þúsund auka Janssen-skammta til þess að nota í þessari viku.

33 þúsund bólusettir í vikunni

Á vef landlæknis segir að í þessari viku verði um 33 þúsund einstaklingar bólusettir hér á landi með þremur tegundum bóluefna. 

Samtals fá um 18 þúsund bóluefni Pfizer, þar af fá 8.500 fyrri bólusetninguna. Á landsbyggðinni fá liðlega 5.000 seinni skammtinn af AstraZeneca og 10 þúsund einstaklingar fá boð í Janssen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert