Freyr: „Borgin hristist öll“

Freyr Alexandersson knattspyrnuþjálfari.
Freyr Alexandersson knattspyrnuþjálfari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leik Danmerkur og Rússlands á EM í fótbolta lauk fyrir rúmri klukkustund, en Danir sigruðu að lokum með fjórum mörkum gegn einu marki Rússlands.

Freyr Alexandersson knattspyrnuþjálfari er staddur í Kaupmannahöfn. Hann komst þó ekki á leikinn, en horfði á hann í sjónvarpinu úti í Kaupmannahöfn.

„Mér fannst hann stórkostlegur,“ segir Freyr spurður hvað honum fannst um leikinn.

Danska liðið gat fagnað í kvöld.
Danska liðið gat fagnað í kvöld. AFP

„Þetta var rosalegt“

„Þau eru hérna ennþá í settinu á danska ríkisútvarpinu í miklum tilfinningarússíbana yfir þessu öllu.“

Leikurinn var afar skemmtilegur, en Danir þurftu að treysta á að Belgar næðu marki gegn Finnlandi til þess að annað sæti riðilsins væri þeirra.

„Belgarnir skora svo, og því er fagnað. Síðan er mark Belga dæmt af þeim og í sömu andrá fá Rússar vítaspyrnu, þetta var rosalegt.“

Artem Dzyuba, sem skoraði eina mark Rússa í kvöld, fremur …
Artem Dzyuba, sem skoraði eina mark Rússa í kvöld, fremur bugaður yfir úrslitum kvöldsins. AFP

Ótrúlegur karakter í liðinu

Fá lið á mótinu hafa upplifað sambærilegan tilfinningarússíbana og Danir, en eins og greint var frá hneig þeirra besti maður, Christian Eriksen, niður vegna hjartaáfalls í fyrsta leik mótsins.

„Mér finnst danska liðið sýna alveg ofboðslegan styrk að koma til baka og sýna gæðin sem búa í liðinu. Það hefur blásið hressilega á móti þeim og maður dáist bara að því hvernig leikmenn og þjálfari hafa náð að vinna upp stemninguna.“

Eðli málsins samkvæmt er gífurleg orka og fagnaðarlæti í Kaupmannahöfn í kvöld.

„Ég er hérna nokkrum kílómetrum frá vellinum, en það hristist allt hjá mér. Borgin hristist öll.“

Andreas Christensen skoraði þriðja markið.
Andreas Christensen skoraði þriðja markið. AFP
Fagnað við leikslok.
Fagnað við leikslok. AFP
mbl.is