Íslendingur í uppáhaldi hjá Noregskonungi

Unnar Logi Hauksson með Haraldi fimmta Noregskonungi.
Unnar Logi Hauksson með Haraldi fimmta Noregskonungi. Ljósmynd/Sven Gj. Gjeruldsen, det Kongelige Hoff

Íslendingurinn Unnar Logi Hauksson var á dögunum heiðraður með gjöf fyrir þjónustu sína í norska hernum. Gjöfin var úr sem Haraldur fimmti Noregskonungur færði honum við hátíðlega athöfn á föstudag.

„Þetta hefur verið alveg stórkostlegt ferli og ótrúlega mikill heiður að hitta konunginn. Það eru mjög fáir hermenn sem fá tækifæri til að upplifa þetta og enn þá færri Íslendingar,“ segir 23 ára gamall Unnar í samtali við mbl.is.

Hann er eini Íslendingurinn sem hefur hlotið þessa heiðursgjöf.

Vann sér inn traust og virðingu

Úrið, sem er á góðri norsku kallað „gardens ur“ eða úr varðarins er heiðursgjöf sem aðeins þeir hermenn hljóta sem skarað hafa fram úr í starfi sínu í fótgönguliði HKMG eða „Hans Majestet Kongens Garde“. Unnar gekk í herinn í ágúst á síðasta ári og hefur því ekki verið lengi að vinna sér inn traust og virðingu yfirmanna sinna.

Aðalhlutverk HKMG er að verja Noregskonung, konungsbústaðinn og Óslóborg. Unnar starfar að eigin sögn í fimmtu deild liðsins sem sér um hernaðarlegt skipulag, fjarskipti og eftirlit.

„Starfið mitt felst í því að sjá um allan búnað í herbúðunum og að vera leiðtogi á æfingum deildarinnar. Ég sé til þess að allir hermenn séu með þann búnað sem þeir þurfa og að þeir gæti vel að búnaðinum.“

Unnar var heiðraður fyrir störf sín með gjöf frá Noregskonungi.
Unnar var heiðraður fyrir störf sín með gjöf frá Noregskonungi. Ljósmynd/Sven Gj. Gjeruldsen, det Kongelige Hoff

Fer sífellt fram úr væntingum

Með heiðursgjöfinni sem Unnar hlaut fyrir vel unnin störf sín hjá norska hernum fylgdi bréf þar sem gert er grein fyrir því hvers vegna hann var heiðraður. 

„Í starfi sínu sem hermaður í fimmtu deild hefur Unnar sýnt einstaklega gott viðhorf. Hann hefur öðlast góða færni í starfi og á sama tíma viðhaldið gæði þjónustunnar. Unnar hefur sýnt hugrekki og staðfestu með því að gera kröfur til sjálfs síns, samherja sinna og yfirmanna. Þá hefur hann einnig sýnt mikið frumkvæði í starfi sínu þar sem hann fer í sífellu langt fram úr væntingum yfirmanna sinna. Fyrir vikið hefur honum verið treyst fyrir ábyrgðarmiklum verkefnum sem hann hefur sinnt af mikilli natni,“ segir í bréfinu. 

Hefur þú alltaf verið svona athafnasamur?

„Ég hef alltaf verið duglegur en það er mikilvægt að finna eitthvað sem maður hefur ástríðu fyrir og ég hef svo sannarlega fundið það hér,“ segir hann. 

„Hér fæ ég mikla ábyrgð og mér er sýnt traust. Hér fæ ég að reyna á mig bæði líkamlega og andlega. Ætli það hafi ekki verið agi og ævintýraþrá sem leiddi mig í herinn.“

Þegar einar dyr lokast opnast aðrar

Unnar er fæddur og uppalinn á Íslandi en flutti með fjölskyldu sinni til Noregs sumarið 2011, þá 13 ára gamall. Hann kláraði grunn- og framhaldsskóla í Noregi og svo eins árs háskólanám í einkaþjálfun. Hann hefur þó aldrei aldrei starfað sem einkaþjálfari.

„Frá 2019-2020 var ég að vinna fyrir þyrlufélag í Vestur-Noregi en missti vinnuna í heimsfaraldrinum. Það var þá sem ég ákvað að sækja um herskyldu í norska hernum. Ég hafði lengi haft áhuga á því að ganga í herinn og þarna fékk ég tækifæri til að prófa eitthvað alveg nýtt,“ segir hann.

Inntur eftir því segist Unnar vel geta hugsað sér að auka herskyldu sína hjá norska hernum.

„Mig langar að reyna fyrir mér sem liðþjálfi. Þá væri ég leiðtogi herliðs og sæi um menntun og þróun fótgönguliða. Við sjáum bara til. Það eru margir möguleikar í hernum og hundruð mismunandi störf í boði.“

Unnar hefur þó tíma til að hugsa næstu skref þar sem hann er á leiðinni í þriggja vikna sumarfrí. Hann hyggst eyða sumarfríinu í Noregi með kærustunni sinni og fjölskyldu.

„Ég ætla bara að taka það rólega í fríinu. Njóta tímans sem ég fæ að eiga með ástvinum mínum sem ég fæ lítið að hitta á meðan ég er í hernum.“

mbl.is