„Margir leikir fram undan“

Prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi lauk í gær, sem og prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, bar sigur úr býtum í oddvitaslag í Norðvesturkjördæmi og Sigurður Ingi hlaut dyggan stuðning í efsta sæti Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Þórdís Kolbrún segir í Morgunnblaðinu í dag að hún sé ekki farin að hugsa hvaða ráðherrastóll sér hugnist að loknum kosningum, fyrst tekur við kosningabarátta og kosningar í kjölfarið á því.

„Fyrst náttúrlega eigum við eftir heljarinnar kosningabráttu og svo eiga kjósendur eftir að segja hug sinn og svo tekur eitthvað við. Ef við komumst í ríkisstjórnarsamstarf vona ég að ég njóti enn trausts til þess að sitja sem ráðherra og varaformaður flokksins,“ segir Þórdís.

„Ég er auðvitað í alveg ótrúlega skemmtilegu ráðuneyti, sem snýst í grundvallaratriðum um framtíðina og tækifærin sem við sem samfélag stöndum frammi fyrir. Og það verður nóg að gera þar næstu árin. Ég held að það sé ótímabært að öðru leyti að máta sig við einhver ráðherraembætti, það eru svo margir leikir fram undan.“

Sigurður Ingi hefur hins vegar velt fyrir sér mögulegri og áframhaldandi ráðherrasetu, eins og hann útskýrir fyrir Morgunblaðinu. Hann segist fullur bjartsýni um að Framsóknarflokkurinn verði aftur leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum.

Hann segist einnig spenntur að vinna með Jóhanni Friðriki Friðrikssyni, sem varð annar í prófkjöri Framsóknarflokksins í gær, og skákaði þar með Silju Dögg Gunnarsdóttur, þingmanni til átta ára. Silja segist hætt á þingi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert