Meðmælaganga fyrir lífið og menningu

Farin verður sumarsólstöðuganga í Viðey í kvöld en á sólstöðum er sólargangur lengstur hér á norðurhveli jarðar og hádegissólin hættir að hækka dag frá degi. Þá fer hún að lækka og dagurinn að styttast og gerist þessi viðsnúningur á „sólstöðumínútunni“ sem að Þessu sinni verður kl. 03.32.

Sumarsólstöðuganga í Reykjavík og nágrenni hefur nú verið stunduð árlega síðan 1985 en þetta verður í tólfta sinn sem gangan verður í Viðey. Þá segir í tilkynningu að gangan hafi verið kölluð „meðmælaganga með lífinu og menningunni“ og að gestir séu hvattir til þess að spjalla saman og njóta samvista.

Gestur göngunnar verður Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, lögfræðingur og stjórnarformaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, sem flytur þátttakendum ávarp. Þá verður farin skemmtileg gönguleið um vesturhluta Viðeyjar en á leiðinni mun sérfræðingur frá Listasafni Reykjavíkur segja gestum frá verkinu Áfangar eftir bandaríska listamanninn Richard Serra, sem er einmitt á þessum hluta eyjarinnar.

Siglt verður frá Skarfabakka kl. 20 og til baka ekki seinna en kl. 23. Gjald í ferjuna fram og til baka er 1.650 kr. fyrir fullorðna, 1.500 kr. fyrir eldri borgara og nemendur og 825 kr. fyrir börn 7–17 ára í fylgd fullorðinna. Börn 6 ára og yngri sigla frítt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert