Notuðu nafn Rauða krossins í leyfisleysi

Frá símaveri Rauða krossins.
Frá símaveri Rauða krossins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nafn Rauða krossins var notað í auglýsingu Félags fíkniefnalögreglumanna án samþykkis Rauða krossins.

Frá þessu greina samtökin í tilkynningu.

Félagið birti auglýsinguna á síðum 26-27 í Morgunblaðinu á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Hún hefur síðan sætt gagnrýni víða á samfélagsmiðlum þar sem fólk hefur meðal annars bent á að í henni felist úrelt viðhorf til þess hvernig taka eigi á notkun vímuefna.

Í auglýsingunni, sem er stuttorð, segir eftirfarandi:

„Kannabisneysla ... byrjar oft á saklausu fikti. Endar oft í uppgjöf, geðrænum vandamálum og jafnvel ótímabærum dauða. Við viljum koma í veg fyrir það. Kannabis er líka hættulegt fíkniefni.“

Framsetningin valdi hræðslu

Samtökin segja það mjög miður að nafn þeirra hafi verið lagt við auglýsinguna, „enda skilaboð auglýsingarinnar alls ekki í anda áherslu Rauða krossins á skaðaminnkandi og mannúðlega nálgun“.

Rauði krossinn bendir enn fremur á að samtökin telji framsetningu skilaboðanna því miður valda hræðslu, frekar en að ýta undir forvarnir. 

„Þá kemur á óvart að sjá fleiri aðila sem talað hafa fyrir skaðaminnkandi nálgun á þessum lista en kannski lentu fleiri þar án samþykkis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert