Óvenjulegt næturfrost á sumarsólstöðum

Hiti fór niður fyrir frostmark á Austurlandi á sumarsólstöðum í …
Hiti fór niður fyrir frostmark á Austurlandi á sumarsólstöðum í nótt. mbl.is/Jónas Erlendsson

Næturfrost var á Egilsstöðum í nótt sem væri ekki frásögur færandi nema fyrir þær sakir að á sama tíma voru sumarsólstöður. Frá þessu greindi veðurfræðingurinn Einar Sveinbjörnsson á Facebook í dag. Blaðamaður mbl.is hafði samband við Einar til að vita hvaða þýðingu þetta gæti haft.

„Þetta þýðir ekki nokkurn skapaðan hlut. Það er bara fyndið að þetta skuli gerast á sumarsólstöðum. Það er náttúrlega komið yfir þann tíma þar sem næturfrost snemmsumars eru eðlileg. Það er samt búið að vera svo kalt síðustu daga að maður er hættur að kippa sér upp við að það frysti svona. Nú er dagurinn lengstur og um leið og sólin kom upp er hitinn fljótur upp. Svo hjálpaði það náttúrlega alveg til að það var sunnanátt. Þá er hlýrra loft á leiðinni. Þetta eru bara skemmtilegar andstæður,“ segir Einar.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sumarsólstöður voru um hálf fjögur leytið í nótt. Austanlands fór hitinn sums staðar niður fyrir frostmark eins og á Egilsstöðum þar sem hitinn var -0,2°C klukkan tvö í nótt. Eftir að sunnanáttin gerði vart við sig fór hitinn þó óðum hækkandi aftur og var kominn í +15°C klukkan 11 í morgun á Seyðisfirði, samkvæmt Facebook-færslu Einars.

„Það er til íslensk hjátrú um alla mögulega hluti eins og það að það frjósi saman sumar og vetur. Það er svo fjarstæðukennt að velta því fyrir sér hvort það frysti á sumarsólstöðum, sem er út af fyrir sig bara mjög fyndið að gerist. Þótt það sé ekki alveg útilokað að það gerist. Þetta bara svona til gamans gert að velta því upp hvort það sé til einhver hjátrú um þetta, sem ég efast nú samt um. En hún hljóti þá að vera fyrir einhverjum ægilegum öfgum, því þetta er svo fátítt. Ekki bara að það sé fyrir eldgosi heldur tíu eldgosum í röð eða einhverju slíku,“ segir Einar glettinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert