Segir að snúið hafi verið út úr orðum sínum

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er bara að gera þetta upp við mig, sjá hvernig landið liggur. Það eru tímamót þegar það eru leiðtogaskipti hjá flokknum í kjördæminu,“ segir Haraldur Benediktsson, þingmaður og fráfarandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. 

Hann laut í lægra haldi í oddvitaslag við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála- iðnaðar og nýsköpunarráðherra og varaformann flokksins um helgina.

Haraldur liggur nú undir feldi og gerir upp við sig hvort að hann muni þiggja annað sæti á listanum sem honum féll í skaut í prófkjörinu.  

„Það er það sem ég var að vísa í fyrir helgi; að það koma inn nýjar áherslur með nýjum leiðtoga þó hann sé úr sama flokki. Ég heyri ekki annað en að nýr oddviti vilji hafa mig með. En þetta er ekki alveg komið,“ segir Haraldur og vísar þá til orða sinna frá því fyrir helgi þegar hann sagði að óheppilegt gæti verið fyrir nýjan oddvita að hafa þann gamla í aftursætinu.

Gerir upp hug sinn á næstu dögum

„Í landsbyggðarkjördæmi eins og Norðvesturkjördæmi verða áherslubreytingar þegar að slíkt verður. Mín pólitík snýr að strjálli byggðum og áherslum sem þar eru.“ 

Hann segist núna hugsa hvernig nýjar áherslur muni fara saman við sína pólitík og sína þingmennsku á meðan hann var oddviti. 

Spurður hversu langan tíma hann muni taka í að liggja undir feldi segir Haraldur að það verði á næstu dögum. 

Heiðarlegt að segja frá því fyrirfram

Hann segist hafa fengið mikið af áskorunum um að halda áfram. 

Um ummæli sem hann lét falla í viðtali við Bæjarins bestu fyrir helgi, þess efnis að hann teldi ekki gott fyrir nýjan oddvita að hafa þann gamla í aftursætinu, segir Haraldur að snúið hafi verið upp á orð sín. Hann var í kjölfarið sakaður um að beita hótunum og hatur í garð kvenna. 

„Ég held að fólk hafi ekki lesið hverju ég svaraði blaðamanninum. Hann spurði hvað yrði ef ég myndi tapa. Ég svara því að þetta væri kosning um oddvitasæti og ef það kæmi nýr oddviti væri ekki sjálfgefið að oddviti sem tapar haldi áfram.

Mér fannst bara heiðarlegt að segja frá því fyrirfram að ef ég tapaði kosningum sem oddviti myndi ég endurmeta stöðuna. Ég vildi ekki koma fram eftir á og segja „ég er farinn í fýlu““. 

Þá segir Haraldur það sitja verulega í sér að hafa verið sakaður um að hata konur. 

Reynt að koma Haraldi út af lista

Hann segist einnig hafa verið að bregðast við því að hann hafi orðið þess áskynja að það ætti að koma honum út af lista í þessu prófkjöri, „eins og var reynt“. 

„Það hefði kannski verið heiðarlegt að segja frá því, af þeim sem reyndu það,“ segir Haraldur. 

Spurður hvort að það væri ekki eðli blokkamyndanna þegar barist er um oddvitasæti segist Haraldur ávallt hafa verið skýr í því að hann vildi veg varaformanns flokksins, Þórdísar Kolbrúnar, sem mestan og viljað hafa hana í öðru sæti. Það hafi greinilega verið aðrar áherslur hjá hinni hliðinni. 

Aðstöðumunur í prófkjörum mikill

Haraldur segir að niðurstöður prófkjörsins hafi ekki komið sér á óvart „miðað við umfang þeirrar ofboðslegu maskínu sem var í gangi miðað við hjá okkur flestum hinum“. 

Hann segir aðstöðumuninn á milli sitjandi ráðherra, sitjandi þingmanna og svo annarra vera mikinn þegar kemur að prófkjörum. 

„Hún [Þórdís Kolbrún] hafði líka fleira fólk sér til aðstoðar sem að óbreyttir þingmenn hafa ekki,“ segir Haraldur og vísar til þess að ráðherrar hafi tvo aðstoðarmenn sér til halds og trausts. 

Geti ekki lokað augunum fyrir kosningunni

Þá segir hann að borið hafi á óánægju með að Þórdís Kolbrún sé ekki búsett í Norðvesturkjördæmi. 

„Það er nú yfirleitt reglan að frambjóðendur í lafsbyggðarkjördæmunum séu búsettir í kjördæminu.“

Þórdís Kolbrún er búsett í Kópavogi en er frá Akranesi.

„Nú þarf maður bara aðeins að melta hvernig maður kemur sínum áherslum fram við þessar breyttu aðstæður. Ég get ekki lokað augunum fyri að ég fékk mjög góða kosningu.“

mbl.is