Staðan orðin betri eftir rýmkun á sóttvarnareglum

Gestum hefur verið að fjölga á veitingastöðum eftir að samkomutakmarkanir …
Gestum hefur verið að fjölga á veitingastöðum eftir að samkomutakmarkanir voru rýmkaðar og erlendum ferðamönnum sem koma til landsins fór að fjölga. Meira líf er í bænum en verið hefur. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Staðan er að verða mjög fín. Flestir veitingastaðirnir eru komnir með fulla afkastagetu, mega taka við þeim fjölda sem þeir hafa leyfi fyrir,“ segir Hrefna Björk Sverrisdóttir, veitingakona á Roki við Frakkastíg og formaður Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (Sveit).

Samtökin gagnrýndu á sínum tíma mjög sóttvarnareglur yfirvalda og töldu að veitingastaðirnir bæru skarðan hlut frá borði miðað við ýmsa aðra starfsemi, svo sem leikhús og verslanir. Aðgerðir stjórnvalda hefðu kippt stoðunum undan rekstrargrundvelli veitingastaða.

Hrefna segir að málin séu nú komin í mun betri farveg. Nú megi 300 manns vera inni á veitingastað í einu og langflestir staðirnir séu undir því marki. Fæstir veitingastaðir séu opnir lengur en til eitt og því komi þau tímamörk ekki að sök hjá þeim. Lokunartíminn bitni þó á börum og skemmtistöðum.

„Þetta tekur tíma en er allt á áætlun. Það virðist styttast í að öllum takmörkunum verði aflétt,“ segir Hrefna í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert