Þrír menn dæmdir fyrir meiri háttar skattalagabrot

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. Ljósmynd/Þór

Þrír karlmenn voru í dag dæmdir í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir meiri háttar skattalagabrot, sem framin voru í rekstri einkahlutafélags.

Tveir mannanna hlutu tólf mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm og var öðrum þeirra gert að greiða ríkissjóði 63 milljónir króna en hinum var gert að greiða 14,6 milljónir króna.

Sá þriðji hlaut þriggja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm og var honum gert að greiða ríkissjóði 2,9 milljónir króna. 

Mennirnir þrír voru meðal annars dæmdir fyrir að hafa ekki greitt virðisaukaskatt til ríkissjóðs og láðst að skila virðisaukaskattskýrslum.

Þá voru þeir einnig dæmdir fyrir að halda ekki bókhald og varðveita það um starfsemi einkahlutafélagsins.

mbl.is