Undir hverjum og einum að taka ákvörðun

Teitur Björn Einarsson.
Teitur Björn Einarsson. Ljósmynd/Aðsend

Teitur Björn Einarsson, lögmaður og frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, kveðst fyrst og fremst ánægður með þátttöku í prófkjöri sjálfstæðismanna í kjördæminu sem fram fór á miðvikudaginn og laugardaginn. 

Alls greiddu 2.289 atkvæði í prófkjörinu. 

„Hún sýnir að Sjálfstæðisflokkurinn á mikil sóknarfæri í kjördæminu í komandi kosningum,“ segir Teitur í samtali við mbl.is. 

Teitur hafnaði í þriðja sæti í prófkjörinu á eftir Þórdísi Kolbrúnu, varaformanni og ráðherra flokksins, og Haraldi Benediktssyni, núverandi oddvita flokksins í kjördæminu. 

Þórdís ótvíræður leiðtogi

„Þórdís Kolbrún varaformaður hlýtur algjöra yfirburðakosningu. Hún er ótvíræður leiðtogi okkar sjálfstæðismanna í kjördæminu og vel að því komin. 

Ég sjálfur er þakklátur fyrir allan stuðninginn sem ég fékk og þakka öllum þeim sem aðstoðuðu mig og lögðu hönd á plóg og gerðu þetta prófkjör skemmtilegt,“ segir Teitur. 

Aðspurður hvort ljóst sé að hann muni færast upp í annað sæti á listanum, sem færir honum þingsæti miðað við kannanir og gengi flokksins í kjördæminu undanfarið, þar sem Haraldur Benediktsson, núverandi oddviti í Norðvesturkjördæmi, sagði áður en úrslit prófkjörsins lágu fyrir að hann myndi hafna öðru sæti, segist Teitur ekki hafa upplýsingar um afstöðu Haralds að öðru leyti en því sem fram hefur komið í fjölmiðlum. 

„Úrslit prófkjörsins eru alveg skýr og það er það sem ég horfi í. Það er undir hverjum og einum komið hvað hann gerir með þau,“ segir Teitur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert