Afhentur vökvi í ómerktu glasi gegn veirunni

Rökstuddur grunur leikur á að brotið hafi verið gegn ákvæðum …
Rökstuddur grunur leikur á að brotið hafi verið gegn ákvæðum lyfjalaga. AFP

Lyfjastofnun hefur borist ábending um að einstaklingi hafi verið afhentur vökvi í ómerktu glasi ásamt fyrirmælum um að vökvann skyldi nota til meðferðar eða forvarnar gegn Covid-19. Þetta staðfestir Lyfjastofnun í svari við fyrirspurn mbl.is.

Í svari sínu bendir Lyfjastofnun jafnframt á að strangar reglur gildi um sölu lyfja og að grundvöllur þeirra sé að tryggja öryggi neytenda og sjúklinga. „Þannig að þeir geti verið fullvissir um að lyf uppfylli allar þær kröfur sem til þeirra eru gerðar og heilsu og velferð þeirra sé ekki stefnt í hættu,“ segir í svarinu.

Jafnframt kemur fram að stofnunin sjálf hafi ekki sýni undir höndum til greiningar á vökvanum. 

Lögreglan með málið til rannsóknar

Þá staðfestir Lyfjastofnun að lögreglan sé með málið til rannsóknar en stofnunin kærði verknaðinn til lögreglu. Segir einnig í svarinu að rökstuddur grunur leiki á því að brotið hafi verið gegn ákvæðum lyfjalaga með afhendingunni og að brotin geti varðað sektum eða fangelsisvist.

„Meint brot lúta að ákvæðum lyfjalaga sem fjalla um framleiðslu, markaðssetningu, dreifingu og ávísun lyfja. Veruleg hætta kann að stafa af brotum af þessu tagi. Í því samhengi má nefna að engar yfirfarnar eða staðfestar upplýsingar liggja fyrir um hvert innihald þess efnis sem um ræðir er, eða með hvaða hætti efnið hefur verið framleitt. Einstaklingum kann jafnframt að stafa mikil hætta af því að vera afhent óskilgreind vara, sem sannarlega er ekki samþykkt lyf, en er sögð veita lækningu eða vörn gegn sjúkdómi,“ segir í svari Lyfjastofnunar.

Í frétt DV segir að lögreglan hafi yfirheyrt Guðmund Karl Snæbjörnsson lækni vegna gruns um að hann hafi dreift lyfinu ívermektín á Íslandi gegn Covid-19. 

Lyfjastofnun Evrópu hefur mælt gegn því að ívermektín sé notað til varnar eða meðferðar Covid-19.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert