Allir með meiri kaupmátt nema karlar undir þrítugu

Kaupmáttur karla hefur í heild aukist á 25 árum en …
Kaupmáttur karla hefur í heild aukist á 25 árum en ekki í yngstu hópunum.

„Ef þú velur íslenskan karl undir 30 ára af handahófi er líklegra en ekki að hann geti keypt minna fyrir tekjurnar sínar heldur en jafnaldri hans árið 1994.“

Þetta segir Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, á Twitter og bendir á að kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi nefnilega aukist hjá öllum öðrum.

Vísar Konráð þar í úttekt Talnakönnunar fyrir Birtu lífeyrissjóð en í úttektinni kemur meðal annars fram að kaupmáttur karla hafi í heild aukist á 25 árum en ekki í yngstu hópunum.

„Það sem gerist upp úr aldamótum er almennt séð það að yngra fólk situr eftir í tekjuþróun,“ segir Konráð í samtali við mbl.is og bætir við að þetta eigi við um bæði karla og konur.

Auk þess bendir Konráð á að á sama tíma og þessi þróun hafi átt sér stað sé tekjujöfnuður á milli kynja að aukast. Þetta tvennt leiði þá til þess að karlar undir þrítugu og sérstaklega þeir sem eru yngstir hafi minni ráðstöfunartekjur.

Fólk lengur að ná frama

Konráð segir það lítið hafa verið rannsakað hvað valdi en líklega sé um samverkandi þætti að ræða.

„Fyrst og fremst er fólk lengur að ná einhvers konar frama á vinnumarkaði en áður, fólk er lengur að vinna sig upp. Við sjáum til dæmis að stjórnendur hafa orðið á þessu tímabili hlutfallslega eldri en þeir voru áður og stjórnendur eru með hærri tekjur.“

Þá bendir Konráð einnig á að árið 1994 hafi Ísland gengið inn í EES. Fyrir þann tíma voru sárafáir innflytjendur á Íslandi en nú séu innflytjendur margir meðal karla undir þrítugu. „Og við vitum það að innflytjendur eru almennt með aðeins lægri tekjur en þeir sem hafa íslenskt ríkisfang, þannig að það getur verið einhver partur af sögunni,“ segir Konráð.

„En það sem er líka merkilegt í þessu er að þetta er ekkert séríslenskt að yngri aldurshópar hafa setið eftir í tekjum,“ bætir hann við en bendir þó á að hér sé fyrst og fremst um að ræða breytingu sem varð frá aldamótunum og fram að hruni.

Yngri konur einnig setið eftir

Þá hafa yngri konur einnig setið eftir samanborið við aðra aldurshópa en Konráð bendir á að þar sem jöfnuðurinn hefur verið að aukast og tekjur kvenna hækkað meira en karla þá hafi þær séð kaupmáttaraukningu þótt hún sé kannski ekkert rosalega mikil og minni en hjá eldri konum.

„Þetta er svona gömul saga og ný, það jákvæða er að þetta er ekki enn þá að þróast svona. Mig minnir að síðustu ár hafi kaupmáttaraukning hjá þessum yngri hópum bara verið þokkalega í takt við þá sem eru eldri,“ segir Konráð að lokum.

mbl.is