„Ekkert hægt að misskilja þetta“

Kristinn H. Gunnarsson og Haraldur Benediktsson
Kristinn H. Gunnarsson og Haraldur Benediktsson

„Nei, það var ekkert hægt að misskilja þetta, enda setti ég þetta sem fyrirsögn.“

Þetta segir Kristinn H. Gunnarsson, ritstjóri Bæjarins besta, um þá fullyrðingu Haraldar Benediktssonar að snúið hafi verið út úr orðum hans í viðtali við héraðsmiðilinn.

Í viðtalinu, sem birtist á vefnum 15. júní, var haft eftir Haraldi að hann myndi ekki taka annað sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, færi svo að varaformaður flokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hefði betur í slagnum um oddvitasætið.

„Ég hef setið sem oddviti listans og gegnt stöðu fyrsta þingmanns kjördæmisins. Ég hef náð að stilla saman strengi allra þingmanna kjördæmisins til góðra verka. Ég er reiðubúinn að gera það áfram. Feli flokksmenn öðrum það hlutverk er það skýr niðurstaða. Það getur ekki verið gott fyrir nýjan oddvita að hafa þann gamla í aftursætinu,“ sagði Haraldur svo.

Tóku fregnina upp

Tíðindin voru fljót að breiðast út. Var mbl.is á meðal þeirra miðla sem tóku fregnina upp, það er að Haraldur myndi ekki taka 2. sæti listans, yrði niðurstaðan sú.

Vísir gerði slíkt hið sama.

Bæjarins besta sló sjálft upp sérstakri frétt úr viðtalinu, þessa efnis.

Fólk hafi ekki lesið svarið

Prófkjörið fór svo fram dagana 16. og 19. júní, og bar Þórdís að lokum sigur úr býtum. Haraldur hafnaði í öðru sæti listans.

Í samtali við mbl.is í gær sagði hann eftirfarandi um ummælin í Bæjarins besta:

„Ég held að fólk hafi ekki lesið hverju ég svaraði blaðamann­in­um. Hann spurði hvað yrði ef ég myndi tapa. Ég svara því að þetta væri kosn­ing um odd­vita­sæti og ef það kæmi nýr odd­viti væri ekki sjálf­gefið að odd­viti sem tap­ar haldi áfram.

Mér fannst bara heiðarlegt að segja frá því fyr­ir ­fram að ef ég tapaði kosn­ing­um sem odd­viti myndi ég end­ur­meta stöðuna. Ég vildi ekki koma fram eft­ir á og segja „ég er far­inn í fýlu“.“

Fram kom enn fremur að hann lægi nú undir feldi hvað varðar það að þiggja mögulega annað sæti listans.

Hafði ekki samband við Bæjarins besta

Spurður hvort Haraldur hafi haft samband við Bæjarins besta til að leiðrétta það sem eftir honum var haft, annaðhvort fyrir eða eftir prófkjörið, svarar Kristinn neitandi.

„Hann getur þó borið það fyrir sig að ummælin falla í þessu samhengi með bílstjórann og aftursætið.“

Kristinn segist telja, að úr því að Þórdís segist ekki ósátt við að hafa „þann gamla í aftursætinu“, þá sé Haraldur nú að endurskoða afstöðu sína.

Þórdís ræddi sjálf við mbl.is um þau áhrif sem ummæli Haraldar hafa haft eftir prófkjörið:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert