Faraldrinum ekki lokið þótt vel gangi á Íslandi

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir um kórónuveirufaraldurinn að „þetta sé ekki búið“ þótt hverfandi líkur séu á því að nú komi upp hópsmit eða einhver vísir að nýrri bylgju smita.

Hann segir bólusetningar ganga vel sem fyrr en að nokkrar vikur taki bóluefnin að virka í fólki og því sé ekki hægt að segja að Íslendingar séu komnir fyrir horn. 

„Nei, þetta er ekki búið sko,“ segir Þórólfur við mbl.is.

„Við getum áfram fengið veikindi, en við erum ekki í þeirri stöðu held ég að geta búist við einhverri stórri bylgju eins og staðan er núna. Ég vil benda á það, að líklega verður búið að bjóða öllum fyrstu sprautu núna á næstunni, í byrjun júlí, en það tekur auðvitað smá tíma að fá fulla vernd. Þannig að við erum ekki komin þangað, en við erum mjög vel á veg komin.“

Bólusetningar ganga vel hér á landi. Um 82% eru hafa …
Bólusetningar ganga vel hér á landi. Um 82% eru hafa fengið a.m.k. eina sprautu, eða eru með mótefni vegna fyrri sýkingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Engin formleg sigurstund

Þórólfur segir einnig að ekki verði lýst formlega yfir sigri í baráttunni við faraldurinn þegar hann vinnst. Þó svo að á Íslandi gangi vel þá geisar enn skæður faraldur úti í heimi og aðeins sé „brot jarðarbúa“ bólusett. 

„Á meðan svo er verðum við ennþá að fylgjast með hvort komi fram ný afbrigði sem bóluefnin virka ekki á. Svo þarf að skoða hversu vel bóluefnin endast, þurfum við til dæmis allt í einu að gefa þriðja skammtinn? Það gengur svo vel á Íslandi og þá finnst mörgum þetta bara vera búið, en það er bara ekki þannig.“

Þórólfur segir að enn sé ekki ákveðið hvort næsta aflétting sóttvarnatakmarkana innanlands verði allsherjaraflétting, eða bara enn eitt skrefið í átt að afléttingu allra takmarkana. 

„Þetta er bara í vinnslu. Næsta reglugerð um takmarkanir innanlands tekur gildi núna 1. júlí og það er bara er í vinnslu núna.“

Ætlar ekki að hætta strax

Blaðamanni fannst eins og Þórólfur hefði áður sagst ætla að setjast í helgan stein þegar kórónuveirufaraldrinum lyki en það segist hann ekki kannast við. Hann viðurkennir þó að það fari að styttast í það.

„Nei, ég hef aldrei sagt það,“ segir Þórólfur. 

„Ég hef hins vegar sagt það að ég muni allavega sjá fyrir endann á þessu Covid-dæmi, ég náttúrulega er að verða 68 ára og það fer að styttast í mín endalok. En ég hef aldrei sagt að ég ætli að setjast í helgan stein eftir Covid. En auðvitað kemur að því hjá hverjum og einum að menn hugleiði eigin starfslok, en það er ekki alveg komið að því hjá mér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert