Hugsaði aldrei: „Æi ég nenni þessu ekki“

Eyþór Blær Guðlaugsson, 19 ára fótboltamaður, brautskráðist af náttúrufræðibraut Borgarholtsskóla …
Eyþór Blær Guðlaugsson, 19 ára fótboltamaður, brautskráðist af náttúrufræðibraut Borgarholtsskóla í vor og er jafnframt dúx skólans þessa önnina. Ljósmynd/Aðsend

Eyþór Blær Guðlaugsson, 19 ára fótboltamaður í Þrótti og afgreiðslumaður í ísbúð, er dúx Borgarholtsskóla þessa önnina. Eyþór er í hópi 184 nemenda sem brautskráðust í lok maí og var hann með 9,06 í meðaleinkunn. 

„Ég reyndi mitt besta í öllum verkefnum. Ég hugsaði aldrei: …
„Ég reyndi mitt besta í öllum verkefnum. Ég hugsaði aldrei: „Æi ég nenni þessu ekki“,“ segir Eyþór Blær Guðlaugsson, dúx Borgarholtsskóla síðastliðna önn. Ljósmynd/Aðsend

Eyþór var á náttúrufræðibraut og afreksíþróttasviði skólans og tókst honum vel að eigin sögn að samtvinna námið og fótboltann, ekki síst þar sem hann fékk að sleppa við hefðbundna íþróttatíma og valáfanga þar sem hann var á afreksíþróttasviði.

„Ég var á fótboltaæfingum og styrktaræfingum með þjálfara tvisvar í viku,“ segir Eyþór sem æfir fótbolta með Þrótti sem hann hefur gert frá sex ára aldri. „Ég hef æft síðan ég man eftir mér,“ segir hann í samtali við mbl.is. 

Spurður hvort stefnan hafi verið sett á að dúxa frá upphafi segir Eyþór að svo hafi nú ekki verið.

„En ég reyndi mitt besta í öllum verkefnum. Ég hugsaði aldrei: „Æi ég nenni þessu ekki“. Á sama tíma kom það mér ekki það mikið á óvart að ég varð dúx skólans, ég fékk góðar einkunnir og  var alltaf sáttur við það sem ég gerði í öllum verkefnum, allt sem kom auka með var bónus.“

Eyþór segir að heimanámið hafi alls ekki verið að sliga hann heldur hafi hann nýtt tímann í skólanum vel.  „Ég er heppinn að ég þarf ekki að læra það mikið heima þar sem ég næ að klára flest verkefni í skólanum. Ég hef mikinn frítíma til að fara á æfingar og gera það sem mér finnst gaman, að æfa fótbolta.“ 

Braut upp skóladaginn með hreyfingu

Kórónuveiran hafði óneitanlega áhrif á seinni hluta framhaldsskólagöngu Eyþórs og segir hann veiruna aðallega haft áhrif á félagslífið. „Maður gat ekki mætt eins mikið í skólann og hitt vinina og gert eitthvað þannig skemmtilegt en námslega var þetta ekki vandamál, skólinn tók vel á þessu og hélt uppi reglu í skólastarfinu sem var mjög vel gert hjá þeim. Síðan átti ég ekki í miklum vandræðum með að læra heima.“

Á meðan fjarkennslu stóð kom Eyþór sér upp eigin rútínu sem hann fylgdi eftir bestu getu. „Ég vaknaði, fékk mér morgunmat og mætti síðan á skrifborðið þar sem ég sat mestallan skóladaginn,“ segir Eyþór. Í hádeginu reyndi hann að brjóta upp daginn með einhvers konar hreyfingu. „En það gekk stundum ekki,“ segir hann og hlær. 

Sumarið einkennist af fótbolta og ís

Í sumar ætlar Eyþór að njóta síðasta ársins í 2. flokki með Þrótti en markmið hans er að spila með meistaraflokki þegar þar að kemur.  „Ég ætla að njóta þess að spila fótbolta með flokki í síðasta skipti. Svo langar mig að ferðast innanlands og vinna mér inn pening til að eiga fyrir háskólann á næsta ári.“ 

Í sumar ætlar Eyþór að njóta síðasta ársins í 2. …
Í sumar ætlar Eyþór að njóta síðasta ársins í 2. flokki með Þrótti en markmið hans er að spila með meistaraflokki þegar þar að kemur. Ljósmynd/Aðsend

Samhliða fótboltaæfingum er Eyþór er að vinna í Ísbúð Laugalækjar og mun sumarið því einkennast af fótbolta og ís sem er góð blanda að sögn Eyþórs. Í haust mun hann hefja nám í matvælafræði í Háskóla Íslands. 

„Það eru ekki margir sem vita af þessari grein yfir höfuð,“ segir Eyþór en áhugi hans kviknaði eftir kynningu á náminu sem hann fékk í Borgó. „Mér leist mjög vel á þetta og þetta er samblanda af fögum sem mér líst vel á,“ segir Eyþór, en efnafræði og líffræði eru í uppáhaldi hjá honum. 

Eyþór þakkar góða námsárangurinn fyrst og fremst vinum í skólanum sem studdu hann allan tímann. „Þau ýttu mér í gegnum þetta, það hjálpaði til að hafa vini í skólanum sem vissu að ég væri með góðar einkunnir. Þau hvöttu mig til að klára þetta almennilega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert