Persónuvernd úrskurðaði gegn Þorsteini

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. Ljósmynd/Þórhallur Jónsson

Persónuvernd úrskurðaði í dag í máli vegna kvörtunar yfir vinnslu persónuupplýsinga hjá Seðlabanka Íslands. Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Samherja, lagði fram kvörtunina og er baksaga málsins húsleit Seðlabankans hjá Samherja árið 2012.

Kvörtunin, sem var í fjórum liðum, snerist um umfang upplýsingaöflunar, eyðingu persónuupplýsinga á grundvelli laga um meðferð sakamála, varðveislu persónuupplýsinga og miðlun þeirra til héraðssaksóknara.

Fyrstu tveimur liðunum var vísað frá þar sem að dómstólar höfðu þegar tekið afstöðu til þeirra. Varðveisla persónuupplýsinganna og miðlun þeirra til héraðssaksóknara samrýmdust svo gildandi lagaramma. Þetta kom fram í úrskurði persónuverndar.

Persónuvernd.
Persónuvernd.

Húsleit Seðlabankans mergur málsins

Snýr málið að gögnum og persónuupplýsingum sem Seðlabankinn fékk við húsleit sína hjá Samherja árið 2012. Þar voru meðal annars tölvupóstar Þorsteins Más Baldvinssonar, stjórnarformanns Samherja, og upplýsingar um fjármál hans og fleira. Þorsteinn var síðar boðaður í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra vegna Samherjaskjalanna og þar voru gögnin borin undir hann.

Embætti héraðssaksóknara hafði þá afhent skattrannsóknarstjóra gögnin og taldi Þorsteinn að Seðlabankinn hafði gerst brotlegur við lög með því að afhenda embætti héraðssaksóknara þau.

Þá krafðist Þorsteinn þess að Persónuvernd kannaði hvaða skilyrði eða forsendur hefðu heimilað húsleitina hjá Samherja, en héraðsdómur heimilaði leitina, og þá hvort þær forsendur hefðu verið brotnar. Nauðsynlegt væri að kanna hvaða gögn væru til staðar en óljóst var af svörum Seðlabankans hvaða gögn hann væri enn með í sinni vörslu.

Máli Samherja, Þorsteins og Seðlabankans lauk þegar Hæstiréttur felldi úr gildi 15 milljóna króna sekt á hendur Þorsteini og Samherja. Þá var Seðlabankanum gert að greiða 2,5 milljónir í miskabætur til Þorsteins.

Eins og áður var nefnt vísaði Persónuvernd fyrstu tveimur liðum kvörtunarinnar frá vegna þess að dómstólar höfðu áður tekið afstöðu til þeirra. Sneru þeir liðir að umfangi upplýsingaöflunar og eyðingu persónuupplýsinga á grundvelli laga um meðferð sakamála. Síðari tvo liðina er sneru að varðveislu persónuupplýsinga og miðlun þeirra til héraðssaksóknara taldi Persónuvernd samrýmast gildandi lögum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert