„Það verður einhver að koma“

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Árni Sæberg

Eins og fram kom í dag var síðasti séns að fá Janssen-bóluefnið í sumar, nú síðdegis. Öllum þeim sem fæddir eru árið 2002 eða fyrr, sem ekki áttu boð, var boðið að mæta síðasta klukkutímann í dag.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir segir í samtali við mbl.is að ekki hafi gengið eins vel og búist var við.

„Það voru ekki eins góðar heimtur og aðsókn eins og við vorum að búast við.“

Um það bil 1.600 skammtar voru gefnir til þeirra sem ekki voru boðaðir og máttu mæta seinni hluta dagsins.

Á morgun verður bólusett með Pfizer.
Á morgun verður bólusett með Pfizer. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þurftu ekki að farga skömmtum

Spurð hvort farga þurfti skömmtum segir Ragnheiður:

„Nei, ekki einum einasta. Við pössuðum okkur að blanda bara jafn óðum skammtana þar sem það var bara einn og einn að tínast inn, og á engum tímapunkti röð út fyrir dyr.“

Ragnheiður telur ekki svo vera að yngstu hóparnir séu latari en aðrir við að mæta.

„Það eru um það bil 80% heimtur hjá árgöngunum 2001-2004.“

Lakari mæting frá tíunda áratugnum

Frekar sé um að ræða lakari mætingu hjá þeim sem fæddir eru á tíunda áratugnum.

„Þetta er kannski fólk á barneignaraldri, sumir hverjir vilja kannski bíða með bólusetningu þar til barn fæðist og þar fram eftir götunum.“

Spurð hvers vegna ekki verður bólusett meira með Janssen í sumar sagði hún það vera einfalt. „Það verður einhver að koma, við erum með opið í fjóra tíma og enginn mætir.“

Á morgun verður bólusett með Pfizer og segir Ragnheiður að áhugavert verði að sjá hvort fleiri mæti óboðaðir í Pfizer en mættu í Janssen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert