Yfir 6 þúsund klukkutímar í bakvaktir á ári

Meirihluti dýralækna lýsa yfir meiri streitu og auknu álagi í …
Meirihluti dýralækna lýsa yfir meiri streitu og auknu álagi í nýrri könnun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stór hluti íslenskra dýralækna telja álag í starfi vera við þolmörk en þeir dýralæknar sem sinna öllum bakvöktum á sínu svæði vinna yfir 6 þúsund klukkustundir á ári á bakvöktum.

Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Dýralæknafélag Íslands gerði á meðal félagsmanna sinna dagana 7. til 14. júní meðal íslenskra dýralækna. Svarhlutfall var 60%.

Aukið gæludýrahald, óvægin umræða á samfélagsmiðlum, óraunhæfar kröfur viðskiptavina, einmanaleiki, mannekla og samúðarþreyta eru meðal þeirra þátta sem stuðla að aukinni andlegri vanlíðan í stéttinni.

Tæplega 70% þeirra sem svöruðu könnuninni töldu álag í starfi hafa aukist en einn af hverjum fimm hefur skipt um starf vegna álags að minnsta kosti einu sinni yfir lífsleiðina. Eru þá nokkrir sem hafa skipt um atvinnugrein vegna þess.

Lítill félagslegur stuðningur á vakt

Meðal þeirra þátta sem stuðla að andlegri vanlíðan dýralækna eru lítil réttindi þeirra sem vinna verktakavinnu, stór vaktasvæði sem erfitt getur reynst að manna og gífurlegt álag sem má meðal annars rekja til bakvakta en sumir dýralæknar vinna allt að 6 þúsund bakvaktir á einu ári. 

Getur þá verið erfitt að vinna mikið einn á vakt án félagslegs stuðnings vinnufélaga og kom þá meðal annars fram í könnuninni að eftirlitsþolar komast oft upp með óvinsamlega framkomu og jafnvel ofbeldistilburði í garð dýralækna.

Erlendar rannsóknir sýna fram á aukna sjálfsvígshættu

Niðurstöður könnunarinnar hérlendis ættu ekki að koma mikið á óvart í ljósi þeirra rannsókna sem hafa farið fram erlendis.

Rannsóknir í Bandaríkjunum sýna fram á mikinn andlegan vanlíðan meðal dýralækna en einn af hverjum sex er talinn hafa íhugað sjálfsvíg yfir ævina. Benda þá rannsóknir í Bretlandi og Noregi einnig til þess að einstaklingar innan þessarar starfsstéttar séu mun líklegri að falla fyrir eigin hendi en meðal manneskja. Eru norskir dýralæknar taldir allt að tvöfalt líklegri að fremja sjálfsvíg og breskir allt að fjórum sinnum líklegri.

Ekki liggur fyrir út frá könnuninni sem gerð var hérlendis hvort það sama eigi við um íslenska dýralækna en Dýralæknafélag Íslands telur þó mikla þörf á frekari rannsóknum á þessu efni.  

mbl.is