Yfirlið á Ísafirði

Frá Ísafirði.
Frá Ísafirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Um það bil hundrað manns mættu til þess að fá Janssen-bóluefnið á Ísafirði í dag. Fimm af þessum hundrað féllu í yfirlið við bólusetninguna, að sögn Gylfa Ólafssonar, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Hann segir að vel hafi annars gengið að bólusetja.

Spurður hvað hann telji valda yfirliðunum segir Gylfi:

„Þetta er náttúrulega ekki efnið sjálft heldur er þetta svona kvíðaviðbragð. Þegar maður sér einhvern annan falla í yfirlið þá er líklegra að maður finni til óþæginda og það er alveg eðlilegt.“

Fólk þurfti þó ekki að óttast en nóg var af hjúkrunarfræðingum og læknum sem veittu þeim sem féllu í yfirlið aðhlynningu og hressingu. Gylfi segir einnig að enginn hafi slasast, fólk hafi bara fengið þá aðhlynningu sem það þurfti og svo haldið aftur út í daginn sinn.

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.
Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. mbl.is/Sigurður Bogi

Vestfirðingar jákvæðir og mæta vel

Gylfi segir einnig að Vestfirðingar séu almennt jákvæðir fyrir bólusetningum og að fólk af öllum Vestfjarðakjálkanum mæti vel. „Við erum sérstaklega ánægð með það að fólk af erlendum uppruna mætir vel og þetta hefur allt lukkast vel, bæði á norðanverðum og sunnanverðum kjálkanum.“

Gylfi hrósar einnig heilbrigðiskerfinu í heild sinni fyrir vel samræmd og unnin störf í tengslum við bólusetningar.

„Þrátt fyrir að þetta sé allt mjög flókið og snúið hefur kerfið talað svo vel saman. Það eru sömu skilaboð og reglur, og sami hraði alls staðar um landið. Þetta hefur allt verið ótrúlega sanngjarnt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert