48 þúsund hafa sótt hina nýju ferðagjöf

Rúmlega 48 þúsund manns hafa sótt nýju ferðagjöfina á þeim þremur vikum sem liðnar eru síðan hún var gefin út. Þetta kemur fram á vefsíðu Mælaborðs ferðaþjónustunnar. Þá hafa 16 þúsund þegar notað ferðagjöfina.

Nýtist í bensín, skyndibita og flug að mestu

Bensínstöðvar landsins eru meðal þeirra sem notið hafa góðs af hinni nýju ferðagjöf en af þeim 37 milljónum sem ferðagjöfin hefur verið nýtt í hafa N1 og Olís hlotið um 15 milljónir samtals, eða rétt rúmlega 40 prósent allra ferðagjafa. Þar á eftir með um 6 milljónir króna kemur Sky Lagoon, nýja lónið í Kársnesi sem notið hefur mikilla vinsælda síðan það var opnað í vor.

Þar á eftir koma skyndibitastaðir tveir, KFC með um 4 milljónir og Domino's Pizza með um 3 milljónir. Þar næst er flugið, bæði í raunheimum og hermi, en um 3 milljónir hafa farið í Icelandair og aðrar 3 milljónir í flughermifélagið FlyOver Iceland.

Loks hafa um 2 milljónir farið í Tix miðasölu og hvor milljónin í Íslandshótel annars vegar og Icelandair Hotels hins vegar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert