Ætla ekki að greiða veggjöld um Mýrdalssand

Hjörleifshöfði á Mýrdalssandi.
Hjörleifshöfði á Mýrdalssandi. Ljósmynd/Jónas Erlendsson

FETAR, hagsmunasamtök fyrirtækja í ferðaþjónustu, sem sérhæfa sig í skoðunarferðum á jöklum og hálendinu hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau lýsa yfir áhyggjum yfir fyrirætlunum nýrra eigenda jarðarinnar Hjörleifshöfða á Suðurlandi. Þá segjast samtökin ekki ætla sér að semja við landeigendur um veggjöld um svæðið.

Samkvæmt opinberum upplýsingum fyrirtækjaskrár og Skattsins er nýr eigandi jarðarinnar Power Minerals Iceland ehf. Í tilkynningu FETAR eru skráðir eigendur fyrirtækisins, Nils Heinz Jansen og Julian David Hälker, sagðir þýskir starfsmenn STEAG GmbH, sem er sagt raunverulegur eigandi Hjörleifshöfða.  

Flytja út basalt, vikur og sand

„Þýski iðnaðarrisinn STEAG framleiðir meðal annars 9.000 megavött af rafmagni með kolabrennslu samkvæmt upplýsingum á vefsíðum samsteypunnar.

Námavinnsla STEAG tengist notkun á jarðefnum í framleiðslu byggingarefna og íblöndun í steinsteypu. Samkvæmt upplýsingum sem fram hafa komið varðandi kaup STEAG GmbH á jarðeigninni Hjörleifshöfða hyggst STEAG hefja umfangsmikinn útflutning basalt sands og vikurs úr landi Hjörleifshöfða.

Efnið verður flutt með þungaflutningabílum til Þorlákshafnar og flutt erlendis með skipum,“ segir í tilkynningu FETAR.

Segja réttarheimildir skorta

Þá segir í sömu tilkynningu að fyrirtækin Mýrdalssandur ehf. og Vikingpark ehf. starfi sem íslenskir talsmenn STEAG GmbH og hafi lýst yfir eignaryfirráðum á jörðinni Hjörleifshöfða. Mýrdalssandur og Vikingpark hafi þá lýst yfir fyrirætlunum um að hefja gjaldtöku á vegfarendum, bæði ferðaþjónustufyrirtækjum og fólki, vegna ferða um vegi sem liggja um jörðina Hjörleifshöfða, sem er víðfeðm.

Fyrir þessum fyrirætlunum segja FETAR engar réttarheimildir og að augljóst mál sé að enginn ferðaþjónustuaðili muni gera samning við Mýrdalssand og Vikingpark um veggjöld. 

„Sé slíkt gert er brotið gegn hagsmunum ferðaþjónustunnar og tekjuöflun þjóðarinnar, og slíkt vill enginn framkvæmdastjóri hafa á samviskunni,“ segir í tilkynningu FETAR.

mbl.is