Ætluðu að gifta sig en enduðu í farsóttarhúsi

Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áform bandarísks pars á fertugsaldri sem kom hingað til lands í þeim tilgangi að gifta sig fóru fyrir lítið þegar maðurinn greindist jákvæður fyrir Covid-19 í landamæraskimun við komuna til landsins. Þau eru bæði full bólusett. 

Að sögn Gylfa Þórs Þorsteinssonar, umsjónarmanns farsóttarhúsa, komu hjónaleysin til landsins þann 17. júní og áttu að gifta sig á mánudaginn var. 

Fá ekki að vera saman

„Maðurinn reynist jákvæður fyrir Covid-19 þannig að hann er hér í einangrun og hún er hér í sóttkví,“ segir Gylfi í samtali við mbl.is. 

Hann segir þau ekki fá að vera saman í herbergi því konan sé ekki sýkt. 

„Hún er í sjö daga sóttkví því hún var útsett fyrir smiti og hann í 14 daga einangrun. Þau eru í kallfæri við hvort annað. Ætli við leyfum henni ekki að vera áfram þar til hann er laus,“ segir Gylfi. 

Ekki liggur fyrir hvað verður um brúðkaupsáformin. Gylfi segir að þeim hafi verið boðið að gifta sig í farsóttarhúsinu; „Bjarni Ara er nú hótelstjóri hérna, hann hefði líklega getað sungið fyrir þau,“ segir Gylfi og hlær. Þau hafa ekki þekkst boðið enn sem komið er. 

Fjölgar aftur í farsóttarhúsum

Gylfi segir að aðeins sé að fjölga í farsóttarhúsum aftur þar sem smitum á landamærum hefur fjölgað lítillega. Um þrjátíu manns eru í farsóttarhúsinu á Rauðarárstíg og um 300 gestir eru í sóttkví á Fosshóteli við Þórunnartún. 

Hótel Stormur er einnig í leigu sem farsóttarhús en enginn er í því sem stendur.

Gylfi segir að meira eða minna allir sem koma frá Norður-Ameríku séu bólusettir við komu til landsins en margir sem koma annars staðar frá séu það ekki. Enn sé því nokkur fjöldi að koma til landsins vitandi að fimm daga sóttkví sé fram undan.

mbl.is