Búinn með 270 kílómetra

Arnar Helgi í Vík
Arnar Helgi í Vík mbl.is/Jónas Erlendsson

Arnar Helgi Lárusson er nú á fleygiferð eftir suðurströndinni og var hann upp úr klukkan níu á Vík í Mýrdal. Hann er nú þegar búinn að klára rúmlega 270 kílómetra leið en áætlunin er að klára alla 400 kílómetrana við Selfoss núna seinnipart dags.

„Það gengur alveg ljómandi vel,“ sagði Jóhann Rúnar Kristjánsson, sem er í fylgdarliði Arnars, í samtali við blaðamann fyrir skemmstu. „Við erum búin að fá smá óvænta vinda úr öllum áttum, Arnar var svolítið kaldur eftir að hafa verið búinn að hjóla að Jökulsárlóni og til baka á Kirkjubæjarklaustur, en við náðum að hita hann upp og svo fór hann bara aftur af stað.“

Arnar og eiginkona hans, Sóley Bára, hjá Jökulsárlóni.
Arnar og eiginkona hans, Sóley Bára, hjá Jökulsárlóni. Ljósmynd/Aðsend

Þá segir Jóhann að eftir séu um 130 kílómetrar nú þegar þau eru stödd í Vík. „Það eru 130 kílómetrar frá Vík og inn á Selfoss, við reiknum með að vera komin á Selfoss einhver tímann í kringum fimm leytið í dag,“ bætir hann við.

„Það er alveg hellingur af krafti í honum enn þá en þetta tekur á. Þetta er algjört afrek, íslensk náttúra, íslenskir vegir, vindar og alls konar veður.“ Þá bætir Jóhann við að það sé ekki það sama að gera þetta hérna á Íslandi og að gera þetta í útlöndum.

Ljósmynd/Aðsend

Hjólreiðafólk slæst með í för

Ferð Arnars er farin að vekja athygli á hreyfingu hreyfihamlaðra og kemur fram í tilkynningu að öllu liðtæku hjólreiðafólki sé velkomið að slást í för með honum hluta af leiðinni. Þá bendir Arnar á mikilvægi hreyfingar en eins og mbl.is greindi frá hafa hann og SEM-samtökin sett af stað söfnun fyrir kaupum á fjórum sérútbúnum hjólum.

SEM-samtökin munu hafa umsjón með hjólunum en hvert þeirra kostar tvær og hálfa milljón króna. Verkefnið er unnið í samstarfi við Íþróttasamband fatlaðra. Hjólin verða þá lánuð hreyfihömluðu fólki endurgjaldslaust til þess að hvetja það til hreyfingar.

Þeir sem vilja styrkja verkefni Arnars og SEM-samtakanna geta lagt inn frjálsar upphæðir; SEM-samtökin, kennitala 510182-0739 – Reikningsnúmer 0323-26-001323. Skýring: Km400

Einnig er hægt að styrkja verkefnið hér.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert