Enn er stærsta vikan fram undan

Enn er stærsta vikan í bólusetningum á höfuðborgarsvæðinu framundan.
Enn er stærsta vikan í bólusetningum á höfuðborgarsvæðinu framundan. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skipulag bólusetninga fram að „sumarfríi“ liggur fyrir að því leyti sem hægt er að sjá fyrir.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að þrátt fyrir að gærdagurinn hafi verið síðasti stóri Janssen-dagurinn verði áfram hægt að skrá sig í bólusetningu með Janssen inni á heilsuvera.is og fólk verði boðað í litlum hópum. 

„Við munum safna skráningum í litla hópa og taka einn og einn Janssen-hóp næstu vikur samhliða því að við endurbólusetjum,“ útskýrir Ragnheiður.

Um fjögur þúsund skammtar til af Janssen

Ragnheiður segir að þannig verði bóluefnið sem ekki gekk út í gær í opinni bólusetningu nýtt áfram. Ekkert bóluefni fór til spillis þar sem það var blandað jafnóðum. 

„Þetta er í ísskáp hjá okkur, óopnað, þannig að við eigum alla þessa skammta ennþá, um fjögur þúsund skammta,“ segir Ragnheiður. Hún segir óblandað bóluefni endast mánuðum saman svo að ekki þurfi að huga að því sérstaklega.

Í dag er bólusett með bóluefni Pfizer þar sem verið er að gefa fyrri skammta. Ekki verður meira bólusett í þessari viku á höfuðborgarsvæðinu, utan við litla hópa, meðal annars langveik börn.

Bólusett í Laugardalshöll .
Bólusett í Laugardalshöll . mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stærsta vikan til þessa

„Næsta vika verður rosalega stór hjá okkur. Við verðum með 35.000 skammta í endurbólusetningu. Þetta verður stærsta vikan okkar til þessa,“ segir Ragnheiður.

Hún segir að á mánudegi verði bóluefni Moderna, eða Spikewax, gefið í endurbólusetningu.

Á þriðjudaginn verður bóluefni Pfizer gefið í endurbólusetningu, alls um sex þúsund skammtar. 

Á miðvikudegi og fimmtudegi verða svo allt að tólf þúsund skammtar af bóluefni Astra Zeneca gefnir hvorn daginn. Þá eru ótaldir skammtarnir af Janssen sem gefnir verða samhliða. 

Eins og greint var frá á mbl.is á mánudaginn þurfti að fresta bólusetningu með bóluefni Astra Zeneca um viku vegna þess að afhending skammtanna hafði dregist. 

Ragnheiður segir að von sé á bóluefninu frá AstraZeneca á laugardaginn. „Það er eins gott að þeir komi,“ segir hún.

Stór hluti Íslendinga hefur fengið að minnsta kosti einn skammt …
Stór hluti Íslendinga hefur fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni við Covid-19. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sumarfrí 13. júlí

Stefnt er að því að síðasti endurbólusetningadagurinn hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu verði 13. júlí. „Þau sem fá fyrri skammtinn í dag munu fá seinni þann 13. júlí. Þannig að síðustu einstaklingarnir eru að fá fyrri skammt í dag,“ segir Ragnheiður. 

„Við erum að draga upp alla sem voru í handahófskenndu bólusetningunni, þetta eru loka hóparnir í því.“

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Árni Sæberg

Greint var frá því á mbl.is í gær að rúmlega 83% landsmanna yfir 16 ára væru komin með vörn gegn Covid-19. Ragnheiður segir að heimtur séu mjög góðar í bólusetningu sérstaklega þegar litið sé til þess að þýðið sem unnið er með sé öll þjóðskráin.

„Það eru margir skráðir í þjóðskrá sem kannski eru ekki lengur á landinu,“ segir Ragnheiður.

Á heimasíðu Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu má sjá eftirfarandi skipulag næstu vikna:

Frá 28. júní til 13. júlí (vikur 26 til 28) verða eingöngu seinni bólusetningar. 

Eftir það tekur við sumarfrí. (Uppfært 23. júní)

Janssen-bóluefni

Enn er í boði að fá bólusetningu með Janssen-bóluefninu.

Hafið samband í netspjalli á heilsuvera.is og óskið eftir að vera sett á lista.

Safnað verður saman í hóp og boðað þegar hæfilega margir eru komnir á skrá. Ekki eru komnar dagsetningar á þessar bólusetningar.

Vika 26 

  • Mánudagur 28. júní - Moderna 
  • Þriðjudagur 29. júní - Pfizer
  • Miðvikudagur 30. júní - AstraZeneca
  • Fimmtudagur 1. júlí - AstraZeneca 

Vika 27 

  • Þriðjudagur 6. júlí - Pfizer
  • Miðvikudagur 7. júlí - AstraZeneca (ef þörf er á, ekki er hægt að treysta á þessa dagsetningu)

Vika 28

  • Þriðjudagur 13. júlí fyrir hádegi - Pfizer
  • Þriðjudagur 13. júlí eftir hádegi - Moderna
Bólusetningar hefjast aftur um miðjan ágúst en með breyttu sniði. Fyrirkomulag þeirra liggur ekki fyrir en verður kynnt þegar nær dregur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert