Hjóla hringinn á undir 72 tímum

Keppendur voru ræstir af stað kl. sjö í kvöld við …
Keppendur voru ræstir af stað kl. sjö í kvöld við Egilshöll. Kristinn Magnússon

Liðakeppni hjólreiðarkeppninnar Síminn Cyclothon var ræst í kvöld klukkan sjö við Egilshöll í Grafarvogi. Keppendur munu á næstu 72 klukkutímunum hjóla hringinn í kringum landið. Á meðan keppnin stendur yfir er áheitasöfnun fyrir hvert lið. Í ár er safnað fyrir Landvernd, elstu og stærstu umhverfisverndarsamtök landsins.

Liðakeppnin er með boðsveitafyrirkomulagi þar sem að keppendur skiptast á að hjóla en öllum liðum fylgir einn fylgdarbíll sem ferjar aðra keppendur, sem ekki eru að hjóla hverju sinni, og hjólin þeirra. Í ár eru 17 lið skráð til leiks í liðakeppninni og koma liðin úr ýmsum áttum.

Sjálfum sér nógur

Í gær voru einstaklingskeppnin sem og keppendur í hjólakraftsflokki ræstir af stað. Einn tekur þátt í einstaklingskeppninni að þessu sinni, en það er þrekíþróttamaðurinn og ævintýrakappinn Jake Catterall.

Jake stefnir á að setja met í keppninni, en hann setti sér markmið um að klára alla 1.400 kílómetrana á undir 52 klukkutímum. Þetta markmið birti hann á Instagram-síðu sinni fyrr í vetur. Því má ætla að það trufli hann ekki mikið að vera einn í keppninni. Honum nægi að keppa við sjálfan sig.

Hjólakraftur eru samtök með það að markmiði að hjálpa ungu fólki í baráttu við lífsstílssjúkdóma með því að kynna það fyrir hjólreiðum og annarri hreyfingu. Hjólakraftur skráði tvö lið til leiks en liðin keppa þó sem ein heild og með einn sameiginlegan tímaflögubúnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert